Framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2024, Volaða Land eftir Hlyn Pálmason, var kosin inn á stuttlista akademíunnar í flokki alþjóðlegra kvikmynda.
Kvikmyndir frá 88 löndum voru lagðar fram til verðlaunanna þetta árið, en eingöngu 15 myndir komust inn á stuttlistann.
Tilkynnt verður um hvaða fimm myndir verða svo að lokum tilnefndar þann 23. janúar 2024.
Volaða Land var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2022, þar sem hún keppti um Un Certain Regard-verðlaun hátíðarinnar. Hún hefur síðan verið sýnd á mörgum fleiri virtustu kvikmyndahátíðum heims og hlotið fjölda verðlauna og tilnefninga.
Nýverið hlaut hún, fyrst íslenskra kvikmynda, tilnefningu til Film Independent Spirit verðlaunanna í Bandaríkjunum í flokki alþjóðlegra kvikmynda. Eingöngu fimm myndir hljóta slíka tilnefningu ár hvert og verða verðlaunin veitt við hátíðlega athöfn í Los Angeles þann 25. febrúar næstkomandi, tveim vikum á undan Óskarsverðlaunahátíðinni sem haldin verður þann 10. mars.
Myndin fjallar um danskan prest sem ferðast til Íslands á 19. öld til að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar. Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna. Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu og eigin siðgæði.