Kvikmyndin Volaða Land eftir Hlyn Pálmason hlaut í gær tilnefningu til Film Independent Spirit verðlaunanna í Bandaríkjunum í flokki erlendra mynda ársins. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem íslensk kvikmynd er tilnefnd til þessara verðlauna.

Volaða Land er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2024 en hún hefur meðal annars verið til umfjöllunar hjá miðlum á borð við Indiewire, The New York Times, og The Hollywood Reporter.

Fimm kvikmyndir eru tilnefndar í þessum flokki og meðal þeirra eru nýjustu Cannes verðlaunamyndirnar Anatomy of a Fall eftir Justine Triet, sem hlaut Gullpálmann í vor, og The Zone of Interest eftir Jonathan Glazer, sem hlaut Grand Prix verðlaun hátíðarinnar.

Film Independent Spirit verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn í Los Angeles þann 25. febrúar næstkomandi, á undan Óskarsverðlaunahátíðinni sem haldin verður þann 10. mars.

Á árum áður hafa reglulega margar sömu myndirnar verið tilnefndar á báðum hátíðum, en í fyrra vann til dæmis Everything Everywhere All at Once aðalverðlaunin á báðum hátíðum.