Íslenska stefnumóta-appið Smitten hefur getið sér gott orð á Íslandi og Norðurlöndunum. Á dögunum kom út Wavy, nýr spjallleikur úr smiðju Smitten, sem hefur vakið mikla athygli notenda á stuttum tíma.

„Samtölin sem verða til á Smitten eru einstök, þökk sé leikjunum okkar og það eru þeir sem gera Smitten að skemmtilegasta stefnumóta-appinu. Leikirnir okkar hafa hjálpað óteljandi pörum að stíga sín fyrstu skref í sambandinu, en þeir auðvelda fólki að hefja spjall,“ segir Ásgeir Vísir, annar stofnenda og framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá Smitten.
Íslendingar þekkja Smitten vel, en það hefur verið vinsælasta stefnumóta-app Íslendinga í rúm þrjú ár. Appið sker sig úr fjöldanum með leikjum og öðru efni sem auðveldar fólki að kynnast.
„Við áttuðum okkur á því nýlega að notendur eiga oft erfitt með að halda áfram með samtölin sín, eftir að hafa byrjað þau á góðum nótum. Samtöl eiga það til að deyja út, án ástæðu, þó að báðir aðilar séu kannski með smá fiðrildi í maganum yfir hvoru öðru. Wavy er svarið við þessu vandamáli, en leikurinn hleypir nýju lífi í samtölin og ýtir undir smá keppni,“ segir Vísir.
Wavy fær notendur til þess að gefa hlutum einkunn á fyrirframgefnum skala, og svo giska þau á svar hvors annars fyrir stig. Notendur geta gert sínar eigin spurningar, eða geta gefið tilbúnum spurningum einkunn eins og Hryllingsmyndir, fyrstu stefnumót, húðflúr og jafnvel Elon Musk. Út frá svörunum skapast oft skemmtilegar samræður, sérstaklega ef fólk er mjög ósammála. Vinsælustu spurningarnar í Wavy í dag eru: Hundar, sushi og nudd.
„Inn við beinið langar okkur öll að leika okkur og hafa gaman. Leikir færa okkur nær hvoru öðru og ýta stressi og kvíða út af borðinu. Wavy er fyrsti leikurinn sem við setjum út í nokkurn tíma, en á næstu mánuðum ætlum við að setja út fleiri leiki sem allir þjóna mismunandi tilgangi,“ bætir Vísir við.