Nýrri vaxtar og þróunardeild Ölgerðarinnar er ætlað að efla enn frekar viðskipta- og vöruþróun félagsins og er Guðni Þór Sigurjónsson nýr forstöðumaður deildarinnar. Hann hefur starfað um árabil hjá Ölgerðinni og hefur ríflega tveggja áratuga reynslu af matvæla- og drykkjavörugeiranum, bæði á Íslandi og erlendis.

„Mér líst mjög vel á þetta nýja starf og gæti ekki verið ánægðari með þá ákvörðun Ölgerðarinnar að taka það stóra skref að setja enn meiri kraft í þróunarmál. Ölgerðin hefur verið eitt allra framsæknasta matvælafyrirtæki landsins og er draumur fyrir matvælafræðinga með ástríðu fyrir vörunýjungum,“ segir Guðni.

„Með þessu stóra skrefi erum við einnig að horfa til framtíðar í tækjanýjungum og leiðum til að auka framleiðni í framleiðslu. Þriðja stoðin er síðan greining vaxtar- og markaðstækifæra á matvælamarkaði.“

Sjálfur er Guðni er fjögurra barna faðir og að eigin sögn er hann svo heppinn að vinnan er einnig áhugamál.

„Ég fylgist vel með öllu því sem gerist á vettvangi næringar og heilsu, stunda líkamsrækt, körfubolta, kvöldsund og góðar stundir vinum eru síðan ómetanlegar. Ég nefni líka klisjuna um ferðalög, en þau eru frábær leið til að stækka sjóndeildarhringinn og er ég ekkert alltaf vinsælasti ferðafélaginn þar sem ég get týnst í matvörubúðum í nördaskapnum.“

Nánar er rætt við Guðna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.