Hugbúnaðarfyrirtækið Rue de Net hefur ráðið til sín Andra Þór Sigurjónsson til að leiða hóp sérfræðinga sinna í verslunarkerfum. Andri Þór hefur í rúman áratug starfað hjá Högum sem verkefnastjóri á upplýsingatæknisviði og haft umsjón með verslunarkerfum félagsins og ýmsum verkefnum tengdum netinu.

Hann hefur þegar tekið til starfa hjá Rue de Net og verður í hálfu starfi fyrst um sinn en flytur sig endanlega yfir þann 1. október nk.

„Ég byrjaði hjá Bónus 1. janúar 1998, þá 17 ára gamall og hef starfað hjá samsteypunni allar götur síðan,“ segir Andri Þór í tilkynningu. „Í fyrstu var ég óbreyttur starfsmaður í verslun, síðan varð ég verslunarstjóri í Bónus 1998–1999, fór þá til Hagkaups og var í nokkur ár áður en ég tók við umsjón tölvukerfa hjá sérvöruverslunum Haga. Frá árinu 2011 hef ég stýrt verkefnum og daglegum tölvurekstri hjá nokkrum af einingum Haga.“

„Mér fannst vera kominn tími á að breyta til og stíga út úr þessum ramma sem ég hafði verið í þetta lengi. Fljótlega eftir að þessi ákvörðun mín lá fyrir höfðu margir samband, þar á meðal var Rue de Net sem er eitt öflugasta fyrirtækið á sínu sviði hér á landi. Ég hef unnið mikið með þeim í gegnum tíðina og veit því að hverju ég geng og hlakka til að takast á við spennandi verkefni sem bíða mín þar.“

Andri Þór stundaði nám í verslunarstjórn við Háskólann á Bifröst 2004–2005, lauk diplómanámi í stefnumótun og mannauðsstjórn frá Háskólanum í Reykjavík 2012 og hefur auk þess sótt fjölda námskeiða gegnum tíðina sem tengjast tölvum og tölvukerfum, bæði hér heima og erlendis.

Alfred B. Þórðarson, framkvæmdastjóri Rue de Net:

„Við erum á fullri ferð með viðskiptavinum okkar úr skápnum í skýið og fyrirtækjum sem ákveða að fara þá leið fjölgar með hverjum mánuðinum sem líður. Sífellt fleiri þessara fyrirtækja byggja á verslunarrekstri og því er það mikill fengur fyrir okkur að fá Andra Þór í okkar raðir. Með honum kemur gríðarleg reynsla og þekking á öllu sem viðkemur verslun og verslunarkerfum. Hann þekkir allar hliðar verslunargeirans þar sem hann hefur verið verslunarstjóri, innleitt LS Central og verið lykilmaður í UT-málum einhverra af stærstu verslunum landsins í áraraðir. Andri Þór mun leiða hóp sérfræðinga okkar í verslunarkerfum og mun reynsla hans klárlega nýtast öllum viðskiptavinum okkar einstaklega vel á vegferð þeirra í skýið. Ég sé fyrir mér að Rue de Net muni eflast til muna með Andra Þór innanborðs.“