Arna Dan Guðlaugsdóttir hefur tekið við hlutverki birgðastjóra hjá A4. Hún starfaði síðast hjá Controlant sem Finance ERP sérfræðingur og hefur víðtæka reynslu af birgðastýringu, meðal annars fyrir BioEffect og Krónuna.
„Ég er mjög spennt fyrir þessu nýja hlutverki, enda er A4 gott fyrirtæki á skemmtilegri vegferð. Hér er frábær starfsandi, klárir samstarfsfélagar og verkefnin eru krefjandi og skemmtileg,“ segir Arna.
Helstu verkefni Örnu hjá A4 munu snúa að vöruflæði félagsins, eftirliti með innkaupum og innkaupaáætlun og birgðaflæði í verslunum. Að auki mun hún hafa yfirumsjón með þróun á AGR birgðakerfi félagsins og utanumhaldi þess.
„Það er mikill fengur að fá Örnu til liðs við okkur í þetta mikilvæga hlutverk því öflug birgðastýring er lífsnauðsyn í rekstri framsækinna fyrirtækja í dag,“ segir Egill Þór Sigurðsson, forstjóri A4.