Breytingar hafa átt sér stað á framlínu auglýsingastofunnar Svartagaldurs. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Beggi Dan Gunnarsson hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra Svartagaldurs. Beggi þekkir vel til þar sem hann er einn af stofnendum félagins og var áður starfandi stjórnarformaður. Hann starfar einnig fyrir fjárfestingafélagið InfoCapital og er meðstofnandi fjártæknifyrirtækisins Two Birds sem rekur meðal annars upplýsingavefinn Aurbjörgu.
Eydís Ögn Uffadóttir hefur tekið við stöðu rekstrar- og þjónustustjóra, hún er þó alls ekki ókunnug fyrirtækinu þar sem hún gegndi stöðu þjónustustjóra árið 2020. Eydís er með BSc gráðu í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði frá Háskólanum á Akureyri og lauk nýverið MSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Áður en hún tók við núverandi stöðu stoppaði hún við hjá Krabbameinsfélaginu sem sérfræðingur í fjáröflun og markaðsmálum.
Oscar Lopez tekur við stöðu forstöðumanns stafrænnar markaðssetningar. Oscar býr yfir verðmætri reynslu og þekkingu sem hann hefur áunnið sér síðustu 15 ár í greininni. Hann hefur síðustu ár starfrækt sitt eigið fyrirtæki,, Black Flamingo Marketing, þar sem hann hefur veitt alhliða þjónustu í stafrænni markaðssetningu og keyrt flóknar herferðir fyrir mörg innlend og erlend fyrirtæki á fjölmörgum markaðssvæðum. Oscar er með BSc í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík, MBA gráðu frá Schiller International University, tvær diplóma gráður í stafrænni markaðssetningu frá Digital Marketing Institute og margvottaður hjá Google og öðrum miðlum.