Benedikt Karlsson hefur verið ráðinn íþróttastjóri Mjölnis. Hann tekur við starfinu af Böðvari Tandra Reynissyni og Gyðu Erlingsdóttur sem hafa sinnt stöðu íþróttastjóra Mjölnis undanfarin ár.
Auk þess að vera íþróttastjóri mun Benedikt þjálfa Víkingaþreks- og Crossfittíma Mjölnis. Benedikt er meðal annars með BS-gráðu í viðskiptafræði.
Bensi, eins og hann er oftast kallaður, er margreyndur keppnismaður en hann byrjaði að æfa í Mjölni þegar hann var 14 ára ásamt Halldóri tvíburabróður sínum. Þeir sóttu fyrst MMA-unglinganámskeið en færðu sig yfir í Víkingaþrekið og fundu sína fjöl þar.
Hann hefur þjálfað Crossfit og þrektíma í sex ár en síðustu ár hefur hann verið þjálfari hjá Worldfit í World Class. Sem íþróttastjóri mun hann sjá um áframhaldandi uppbyggingu á Crossfit og Víkingaþreki í Mjölni.