Áður en Ásta Björk Sigurðardóttir tók til starfa hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi hafði hún starfað í tæp átta ár hjá greiningardeild Íslandsbanka. Það sem kom henni óvart í nýja starfinu er sú mikla nýsköpun sem á sér stað í sjávarútvegi.
„Auðvitað eigum við flest einhverjar rætur að rekja til sjávarútvegs og erum meðvituð um mikilvægi hans, en ég held að fólk geri sér almennt ekki grein fyrir þeim gríðarlegu tækniframförum sem hefur átt sér stað í greininni,“ segir Ásta.
„Starfið er mjög fjölbreytt en augljóslega mun stór hluti tímans fara í greiningar á rekstrarumhverfi sjávarútvegsins og vakta það sem hefur áhrif á það hér heima og erlendis.“
Ásta Björk ólst upp á Selfossi fyrir utan árið sem hún fór til Bandaríkjanna sem skiptinemi. „Ég var í miðri Kaliforníu, hjá fjölskyldu með fjögur börn. Ég hafði rosagott af því, verandi einkabarn,“ segir Ásta Björk.
„Það var mjög gott að alast upp á Selfossi, og er ég enn tíður gestur í bænum hjá foreldrum mínum og æskuvinkonum. Á mínum yngri árum var ég mjög mikið í íþróttum, þá einna helst fótbolta og dansi. Ef ég gæti valið hvaða íþrótt sem er til að stunda þá væri það fótbolti, en miðað við slysatíðni mína þar er best fyrir mig að forðast hann. Í dag hef ég mest gaman af hlaupum og líður mér sjaldan betur en að hlaupi loknu. Draumurinn er að taka þátt í einhverju hlaupi erlendis og ekki væri leiðinlegt ef það væri í góðra vina hópi.“
Ásta Björk elskaði að reikna og teikna þegar hún var að alast upp og stefndi að því að fara í arkitektúr en ákvað að prófa að skrá sig í hagfræði í háskólanum.
„Upphaflega gerði ég það af hálfum hug, og má eiginlega segja að ég vissi nánast ekkert hvað ég væri að fara út í, enda aldrei setið hagfræði- eða viðskiptafræðikúrs í framhaldskóla þar sem ég útskrifaðist af náttúrufræðibraut,“ segir Ásta Björk.
„Áhuginn kom svo og sé ég alls ekki eftir því í dag að hafa valið hagfræðina, enda er ég tölunörd. Gengur það svo langt að ég tek niður í excel skjal allar tölulegar upplýsingar um Eurovision, hverjir gefa hverjum stig og svona, ég get alltaf misst mig í einhverjum tölum.“
Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .