Friðbjörn Hólm Ólafsson hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra Unimaze en fyrirtækið er eitt af leiðandi fyrirtækjum í Evrópu í sjálfvirkni viðskiptaferla og stöðlum sem tengjast rafrænni skeytamiðlun.
Hann er með yfir 20 ára víðtæka stjórnunarreynslu og starfaði m.a. áður hjá Deloitte, Staka og Símanum. Friðbjörn er með MBA frá Háskólanum í Reykjavík og B.Sc. í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Syddansk Universitet.
„Það er mér mikill heiður og ánægja að taka við þessu starfi. Ég hef bæði fylgst með og átt í afar góðu samstarfi við Unimaze allt frá árinu 2005 og þekki því vel til starfseminnar og þess sem fyrirtækið hefur upp á bjóða. Unimaze er leiðandi á sínu sviði á evrópskum markaði og ég hlakka mikið til að halda áfram uppbyggingu fyrirtækisins með því öfluga teymi sem hér starfar,“ segir Friðbjörn.
Unimaze er með starfstöðvar í þremur Evrópulöndum og viðskiptavini um allan heim. Markús Guðmundsson, stofnandi Unimaze, segir mikin feng í því að fá Friðbjörn til að leiða starfsemina.
„Friðbjörn þekkir vel til Unimaze, hefur framtíðarsýn sem mun stuðla að frekari velgengni fyrirtækisins á alþjóðlegum mörkuðum og reynsla hans mun tryggja áframhaldandi vöxt Unimaze,“ segir Markús.