Valitor, fyrirtæki í eigu Rapyd, tilkynnti í dag um ráðningu Garðars Stefánssonar sem nýs forstjóra fyrirtækisins. Tilkynningin kemur í kjölfar þess að alþjóðlega fjártæknifyrirtækið Rapyd gekk formlega frá kaupum á Valitor af Arion banka.

Garðar, sem er núverandi forstjóri Rapyd Europe og býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu á greiðslulausnum, mun taka við af Herdísi Fjeldsted fráfarandi forstjóra frá og með deginum í dag líkt og kveður á um í kaupsamningi.

Í tilkynningu segist Garðar þakklátur og fullur tilhlökkunar yfir því að fá tækifæri til að leiða fyrirtækið nú þegar Valitor er formlega komið í eigu Rapyd. „Starfsfólk Valitor er mjög mikilvægt fyrir Rapyd og með því að sameina teymi þessara tveggja fyrirtækja getum við náð okkar sameiginlega markmiði: að hjálpa viðskiptavinum á Íslandi, og víðar, að þrífast á hvaða markaði sem er á hnettinum,“ segir Garðar.

Arik Shtilman, forstjóri og meðstofnandi Rapyd:

„Eftir að hafa leitt vegferð Rapyd á íslenska markaðnum undanfarin fjögur ár ásamt því að vera með víðtæka þekkingu á greiðslulausnum bæði á innlendum sem og erlendum mörkuðum er Garðar Stefánsson best til þess fallinn að leiða Valitor nú þegar fyrirtækið er formlega komið í eigu Rapyd. Ísland er heimili Rapyd í Evrópu og ráðning Garðars sem forstjóra Valitor er í takti við vilja og áætlanir fyrirækisins að styrkja rekstur Evrópustarfseminnar hérlendis og halda áfram þeirri vegferð að þjónusta og auðvelda viðskiptavinum að færa sig inn á nýja alþjóðlega markaði.“

Herdís Fjeldsted fráfarandi forstjóri:

„Það er ánægjulegt að Garðar Stefánsson taki nú við keflinu sem forstjóri Valitor og ég hef fulla trú á því að framtíð fyrirtækisins, öflugt starfsfólk og viðskiptavinir eru í mjög góðum höndum. Garðar og Rapyd hafa lagt mikla áherslu á að auka fjárfestingarnar á Íslandi með það að markmiði að þróa nýjar fjártæknilausnir á heimsmælikvarða. Ég hlakka því til að fylgjast með spennandi þróun fyrirtækisins undir merkjum Rapyd.“