Gísli Arnarson hefur hafið störf sem yfirumsjónarhönnuður hjá auglýsingastofunni Hvíta húsinu. Í tilkynningu segir að hann muni skipa stóran sess í skapandi starfi stofunnar. Alls starfa 50 sérfræðingar á ýmsum sviðum hjá Hvíta húsinu.

Áður en hann gekk til liðs við Hvíta húsið starfaði hann hjá Brandenburg í um 9 ár og var aðstoðarhönnunarstjóri síðasta árið. Hann hefur leitt vörumerki á borð við Play, Borgarleikhúsið, Orkusöluna og Orkuna og verkin hans hafa unnið til verðlauna hérlendis og erlendis í gegnum tíðina.

Gísli sinnir einnig störfum fyrir hönnunarsamfélagið á Íslandi og gegnir meðal annars formennsku í FÍT, Félagi íslenskra teiknara. Eins situr hann í stjórn Hönnunarmiðstöðvar og ADC*E, Art Directors Club of Europe. Gísli útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands með BA gráðu í grafískri hönnun árið 2013.

Gísli Arnarson, nýr yfirumsjónarhönnuður hjá Hvíta húsinu:

„Það er spennandi að skipta um umhverfi, taka þátt í vegferð stofunnar og læra enn meira, enda er kjarni starfsfólks reynslumikill í bland við skapandi og metnaðarfulla yngri kynslóð. Verkefnin hjá Hvíta húsinu eru fjölbreytt og áhugaverð og mín reynsla mun nýtast vel hér innanhúss.“

Elín Helga Sveinbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Hvíta hússins:

„Við erum mjög ánægð með að fá Gísla til liðs við okkur. Hann er góð viðbót við okkar öfluga og fjölbreytta hóp og kemur með verðmæta þekkingu að borðinu.“