Mér líður best þegar það er brjálað að gera,“ segir Páll Edwald, nýr verkefnastjóri hjá byggingarfélaginu Reir Verk. „Ég mun sinna verkefnum sem snúa að öryggis, gæða, umhverfis og jafnréttismálum ásamt því að koma að ýmiss konar samningagerð. Því til viðbótar mun ég sinna öðrum tilfallandi umbótaverkefnum.“ Reir Verk er byggingarfélag í örum vexti. Meðal verkefna hjá fyrirtækinu er uppbygging í Vogabyggð og Kirkjusandi en einnig er Reir Verk að fara í uppbyggingu í Hnoðraholti í Garðabæ: „Það er spennandi að fá að taka þátt í uppbyggingu Reir Verk þar sem verkefnin eru fjölbreytt, allt frá hönnun og uppbyggingu reita til sölu eigna.“
Páll útskrifaðist á dögunum með meistaragráðu í lögfræði frá HR. „Lögfræðin er gríðarlega hagnýtt nám sem nýtist í öllu.“ Páll er einn stofnenda hand- verksbarsins Asks á Egilsstöðum, en hann seldi sinn helmingshlut í rekstrinum árið 2020. „Held að þetta sé ein verðmætasta reynslan hingað til, að byggja upp barinn og síðan veitingastað í kjölfarið.“
Sjá einnig : Eigendaskipti hjá Bar Smíðum
Páll var í starfsnámi hjá LEX áður en hann fór í skiptinám til Kaupmannahafnar, en þar starfaði hann einnig hjá tæknifyrirtækinu 3Shape. 3Shape er alþjóðlegt fyrirtæki og eru vörur þess vel þekktar hérlendis á tannlæknastofum. „Ég kom inn á góðum tímapunkti þegar fyrirtækið var að færast úr sprotaumhverfi og yfir í meira „corporate“ umhverfi að sögn Páls. Að vinna í alþjóðlegu fyrirtæki hjálpaði mér að sjá stóra samhengið. Að starfa „in-house“ færir þig mun nær ákvarðanatökunni.“ Páll hefur alla tíð verið óhræddur að breyta til og nýta tækifærin. „Ég gríp gæsina meðan hún gefst, ef ég fæ tækifæri er ég óhræddur að stökkva til. Ætli það einkenni ekki svolítið líf mitt hingað til. Ég flutti á Reyðarfjörð til að vinna í álverinu með litlum fyrirvara beint eftir stúdentinn, þaðan komu tækifærin til að opna barinn. Svo fór ég til Danmerkur og sá fram á að vera hér lengur þar til mér bauðst tækifærið að taka við þessu starfi hjá Reir Verk.“
Páll er alinn upp í Grafarvogi en býr núna með kærustunni sinni, Selmu Eir Hilmarsdóttur læknanema, í miðbænum. Spurður um áhugamál segir Páll „Fótbolti fyrst og fremst, og þá að spila fótbolta.“ Því til viðbótar stundar Páll bæði fluguveiði og golf. „Ég er einmitt á leiðinni með góðu holli í Kjarrá núna þriðja árið í röð áður en alvaran tekur við og hlakka mikið til.“