Gróa Björg Baldvinsdóttir hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri sjálfbærar menningar og stjórnarhátta hjá Terra umhverfisþjónustu en um nýtt svið hjá fyrirtækinu er að ræða. Undir sviðinu falla meðal annars sjálfbærni, stjórnarhættir, mannuður og menning auk stefnumótunar. Áður starfaði Gróa sem framkvæmdastjóri stjórnarhátta og gæðamála hjá Skeljungi og þar áður sem lögmaður hjá Landslögum.
Gróa Björg:
„Framundan eru spennandi tímar hjá félögum líkt og Terra umhverfisþjónustu sem hefur metnað í að auðvelda samfélaginu að taka þátt í hringrásarkerfinu og sjálfbærnisvegferð þess. Ég brenn fyrir því að hafa góð áhrif og vera hreyfiafl til góðs fyrir samfélagið og umhverfið. Að byggja upp og leiða nýtt svið hjá Terra umhverfisþjónustu sem hefur líka þetta fallega hlutverk er gaman og virkilega spennandi.“
Valgeir Baldursson, forstjóri:
„Við hjá Terra umhverfisþjónustu störfum í umhverfi sem er sífellt að breytast með tilheyrandi nýjum áskorunum. Við sem samfélag erum að verða enn meðvitaðri um umhverfis- og samfélagsleg áhrif þess að flokka og endurnýta. Við munum ekki ná að skapa hringrásarkerfi á Íslandi nema við tökum höndum saman og hugum betur að nærumhverfinu okkar, drögum úr sóun og endurnýtum. Við hjá Terra umhverfisþjónustu viljum taka virkan þátt í þeirri vegferð íslensks samfélags með þjónustu okkar og fræðslu.
Við erum þessa stundina í spennandi stefnumótun fyrir félagið og að skerpa á framtíðarsýn félagsins. Með stofnun nýs sviðs sjálfbærar menningar og stjórnarhátta er verið að leggja aukna áherslu á þá mikilvægu málaflokka sem undir sviðinu heyra, ekki síst mannauðnum okkar, menningu og sjálfbærni. Gróa Björg hefur reynslu af þeim málaflokkum sem hún mun nú leiða. Það verður gaman að fara í þessa vegferð með henni og bjóðum við hana velkomna í hópinn.“