Guðjón Norðfjörð hefur verið ráðinn forstjóri EY á Íslandi. Hann tekur við starfinu af Margréti Pétursdóttur, sem hefur verið forstjóri síðastliðin 3 ár og mun hún nú vinna að því að koma nýjum forstjóra inn í starfið, að því er kemur fram í tilkynningu. Hjá EY á Íslandi starfa um 80 manns með fjölbreyttan bakgrunn.

Guðjón er einn af eigendum EY og hefur starfað hjá félaginu frá stofnun þess á Íslandi í desember 2002. Hann er viðskiptafræðingur af reikningshalds- og endurskoðunarsviði frá Háskóla Íslands og hefur á sínum starfsferli unnið á flestum sviðum félagsins og komið að þróun þess og uppbyggingu frá stofnun, ásamt því að veita fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum þjónustu.

Guðjón hefur síðastliðin ár verið sviðsstjóri rekstrarráðgjafar og viðskiptaþjónustu, en þar á undan var hann sviðsstjóri fyrirtækjaráðgjafar. Hann hefur yfir 25 ára reynslu af reikningsskilum, endurskoðun, ráðgjöf á sviði fjármála og rekstrar, ásamt ýmsum úttektum, rannsóknum, matsmálum og fleiru. Guðjón er kvæntur Örnu Hansen og eiga þau þrjú börn.

Guðjón Norðfjörð, forstjóri EY á Íslandi:

„Rekstur EY á Íslandi hefur gengið vel og vaxið og dafnað á undanförnum árum og er það mér mikill heiður að taka við sem forstjóri félagsins. Það eru virkilega spennandi tímar framundan hjá félaginu og mun ég leggja mig fram um að halda áfram þeirri góðu vinnu sem Margrét hefur stýrt undanfarin ár og vil ég þakka henni vel unnin störf. Þá eru ekki síður mörg spennandi tækifæri fyrir okkar viðskiptavini m.a. í sjálfbærni, sjálfvirkni og stafrænum lausnum. Ég sé fyrir mér að félagið muni eflast enn frekar með því öfluga fólki sem starfar hjá félaginu.“