Gísli Kristjánsson og Lárus Gunnarsson eru nýir leiðtogar fyrirtækja – og einstaklingssölu hjá Símanum. Gísli leiðir fyrirtækjasölu sem veitir fyrirtækjum þjónustu og ráðgjöf en Lárus leiðir einstaklingssölu sem sinnir allri sölu og þjónustu til einstaklinga og heimila.
Gísli Kristjánsson kemur til Símans frá Samskipum þar sem hann hefur sinnt viðskiptastýringu síðustu átta ár en áður var hann viðskiptastjóri hjá Vodafone. Gísli er með B.A. í sálfræði og Cand. comm. gráðu með áherslu á markaðssetningu vörumerkja frá Háskólanum í Hróarskeldu ásamt því að eiga farsælan feril sem handboltamaður í Danmörku hjá t.d. Nordsjælland, Fredericia HK og FCK.
Lárus Gunnarsson, sem einnig er fyrrum handknattleiksmaður, er að snúa aftur til Símans eftir að hafa verið þjálfari norska handknattleiksliðsins Bergsøy IL í Noregi. Lárus er með MBA gráðu frá Háskólanum í Aberdeen en var hjá Símanum í sjö ár bæði sem sérfræðingur og stjórnandi, síðast sem deildarstjóri söluaðgerða áður en hann sneri sér að þjálfun í Noregi.
„Við erum afskaplega ánægð með ráðningu Gísla og að endurheimta Lárus aftur í Símaliðið en þeir munu leiða stórar einingar sem báðar eiga ekki aðeins að sækja fram og vaxa heldur einnig að veita kröfuhörðum viðskiptavinum Símans fyrsta flokks þjónustu. Reynsla þeirra og þekking mun nýtast Símanum vel í þeirri spennandi vegferð sem Síminn er í, að verða lipurt nútímalegt þjónustufyrirtæki á sviði fjarskipta og afþreyingar,“ segir Berglind Björg Harðardóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu.