Harald Gunnar Halldórsson hefur verið ráðinn í starf lögfræðings á eignastýringarsviði Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og hefur hann þegar hafið störf. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Harald hefur starfað á fjármálamarkaði frá árinu 2009 og býr að víðtækri reynslu af eignastýringarstarfsemi. Síðasta árið starfaði Harald á viðskipta- og markaðssviði Isavia en þar áður var hann lögmaður Stefnis hf. um árabil. Þar áður starfaði hann í lögfræðiráðgjöf Arion banka hf.

Harald er með MA gráðu frá Lagadeild Háskóla Íslands, er lögmaður með málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum auk þess að vera viðurkenndur stjórnarmaður.

LSR er stærsti og elsti lífeyrissjóður landsins en upphaf sjóðsins má rekja aftur til ársins 1919.