Helga Dögg Aðalsteinsdóttir hefur verið ráðin í starf útibússtjóra Íslandsbanka á Húsavík. Hún var áður þjónustustjóri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga á Húsavík frá árinu 2018 ásamt því að gegna stöðu staðgengils sparisjóðsstjóra.
Íslandsbanki tilkynnti í morgun að ráðið hafði verið í fjórar stöður stjórnenda hjá bankanum, framkvæmdastjóra Fjármálasviðs, forstöðumann verðbréfamiðlunar, forstöðumann framlínuþjónustu Einstaklingssviðs og útibússtjóra á Húsavík.
Nýr framkvæmdastjóri Fjármálasviðs er Ellert Hlöðversson en hann tekur við stöðunni af Jóni Guðna Ómarssyni bankastjóra.
Helga Dögg starfaði áður hjá Íslandsbanka á höfuðborgarsvæðinu og á námsárum sínum vann hún hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga, Spron á Seltjarnarnesi og Íslandsbanka á Húsavík. Hún er viðskiptafræðingur að mennt og með M.Sc. gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskóla Íslands.