Hlynur Ólafsson lögmaður hefur verið ráðinn yfirlögfræðingur Kerecis og tekur við starfinu af Mark Maghie sem látið hefur af störfum vegna aldurs. Hlynur er með meistarapróf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík, málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum, hefur aflað sér verðbréfaréttinda og situr í Bresk-íslenska viðskiptaráðinu og Amerísk-íslenska viðskiptaráðinu.

Kerecis er frumkvöðull í notkun á roði og fitusýrum í lækningartilgangi en vörur Kerecis eru meðal annars notaðar til meðhöndlunar á sykursýkissárum, brunasárum, munnholssárum og til margs konar uppbyggingar á líkamsvef.

Hlynur kemur til Kerecis frá LOGOS lögmannsþjónustu þar sem hann starfaði í 10 ár, síðast sem forstöðumaður skrifstofu LOGOS í London. Hann hefur á undanförnum árum komið að ýmsum málum Kerecis, þar með talið samningagerð vegna útgáfu og sölu á hlutum í félaginu. Hlynur mun hafa starfsstöð á skrifstofu Kerecis á Washington D.C.-svæðinu sem og í Reykjavík þar sem meginaðsetur hans verður.