Nýsköpunarfyrirtækið RetinaRisk hefur tilkynnt um tvær nýjar ráðningar. Khaled Arwani hefur verið ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra erlendrar viðskiptaþróunar og Kristinn Gylfason hefur tekið við stöðu yfirlögfræðings.

Khaled Arwani starfaði áður fyrir ýmis heilsutækni- og líftæknifyrirtæki í Dubai ásamt því að hafa komið að stofnun sprotafyrirtækja. Hann er menntaður erfðafræðingur með framhaldsmenntun í viðskiptafræði frá New South Wales háskólanum í Ástralíu.

Khaled, staðsettur í Dubai, mun sinna áframhaldandi vexti og viðskiptaþróun fyrirtækisins á heimsvísu með áherslu á nýja viðskiptasamninga í Mið-Austurlöndum. Hann mun starfa að því að móta og fylgja eftir framtíðarsýn RetinaRisk sem vinnur að umbyltingu á augnskimun fyrir fólk með sykursýki víðsvegur um heiminn.

Kristinn Gylfason stofnaði nýverið lögfræðistofuna Scaling Legal sem einblínir á vöxt sprotafyrirtækja. RetinaRisk segir að hans fyrri reynsla muni reynast fyrirtækinu dýrmæt við þá skölun sem sé framundan.

Kristinn starfaði áður í fimm ár hjá Sidekick Health en þar sem hann sinnti lögfræðilegum málefnum og persónuverndarmálum. Auk þess hefur hann haldið utan um samningagerð, stjórnun hluthafaskráa, kaupréttarplön, undirbúning stjórnarfunda og önnur verkefni.

„Það er mikill fengur fyrir félagið að fá Khaled og Kristinn til liðs við okkur. Þeir búa yfir langri reynslu þegar kemur að vexti fyrirtækja. RetinaRisk sér fram á verulegan vöxt næstu ár og við þurfum reynslumikið fólk í brúnna,“ segir Ægir Þór Steinarsson, framkvæmdastjóri RetinaRisk.

RetinaRisk (Risk ehf.) var stofnað af Einari Stefánssyni, augnlækni, Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði og Örnu Guðmundsdóttur, innkirtlalækni. Fyrirtækið vinnur að nýsköpun innan augnskimunar, aðallega fyrir fólk með sykursýki og hefur meðal annars þróað algrím til að auka skilvirkni í eftirfylgni þeirrar þjónustu.