Nýlega kynnti atvinnuleitarmiðillinn Alfreð nýja lausn, stutt myndbönd þar sem starfsumsækjendur þurfa að svara spurningum líkt og í ráðningarviðtali.

Helgi Pjetur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Alfreðs, segir að nýja lausnin gangi út á að spara tíma í ráðningarferlinu. „Það snýst allt um það í ráðningarbransanum að finna nýjar og betri leiðir til að skanna yfir umsóknir,“ segir Helgi.

„Kerfið virkar þannig að fyrirtæki geta búið til spurningalista með ráðningarkerfinu hjá okkur og síðan sent þeim hluta umsækjendanna sem þau eru spennt fyrir boð um vídeóviðtal. Þá taka umsækjendurnir upp svörin sín en spurningarnar koma ein og ein í einu, og hafa þeir tvær mínútur til að svara hverri spurningu.“

Helgi segir að hugmyndin sé að líkja sem mest eftir hefðbundnu viðtali, þar sem umsækjendur geti ekki séð spurningarnar fyrirfram, búið til svör og æft sig í að svara þeim.

„Þeir hafa ekki hugmynd um hvaða spurningar koma, þeir geta ekki ýtt á pásu, eða stoppað viðtalið og byrjað upp á nýtt eða neitt svoleiðis,“ segir Helgi sem segir að þrátt fyrir þessar skorður sé þetta jákvætt fyrir umsækjendurna líka.

„Við sjáum það hjá fyrirtækjum sem eru að nota þetta að fleiri umsækjendur eru að fá tækifæri til að sýna sig, því það eru kannski ekkert allir góðir í því að búa til ferilskrá eða líta betur út á pappír en í raun.“

Mörg fyrirtæki fara í gegnum tímafrekt ráðningarferli með kannski tveimur umferðum sem Helgi segir að hægt sé að stytta með þessari tækni, til dæmis með því að sleppa fyrstu umferðinni eða nota þennan möguleika sem aukaumferð til að geta betur áttað sig á þeim umsækjendum sem síðan eru boðnir í viðtal.

„Þau fyrirtæki sem hafa prófað þetta hjá okkur eru til dæmis Nova, Gló, DHL, Dominos og Tæknivörur sem eru með Samsung-umboðið,“ segir Helgi sem segir þjónustuna ekki vera dýra.

„Við erum með svolítið öðruvísi verðmódel heldur en flestir í þessum geira, því við erum í grunninn auglýsingafyrirtæki, það er að við rukkum fyrir auglýsingarnar sem fyrirtækin kaupa og látum ráðningartólið fylgja frítt með.

Það gerir fyrirtækjum kleift að taka á móti og vinna úr umsóknunum í ráðningarkerfi Alfreðs. Vídeóviðtölin eru svo fyrsta viðbótin við kerfið sem mun kosta, en hún verður ókeypis fram til 1. febrúar. Þangað til geta fyrirtæki prófað þessa lausn eins og þau vilja, en svo mun hún kosta 16.900 krónur fyrir hverja auglýsingu, það er hvert ráðningarferli.

Þá opnar fyrirtækið á lausnina fyrir það ráðningarferli, það er fyrir umsækjendur þeirrar auglýsingar, og geta þau þá sent þeim boð um vídeóviðtal.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .