„Mér finnst svo heillandi að geta nýtt mér bakgrunninn minn í eitthvað sem er kreatívskt, gagnadrifið og umbreytandi,“ segir Gísli Guðjónsson nýr ráðgjafi hjá Júní. Fyrirtækið varð til í júní í fyrra þegar Parallel ráðgjöf og hönnunar- og hugbúnaðarstofan Kosmos & Kaos sameinuðust. „Í mínu hlutverki veiti ég viðskiptavinum ráðgjöf á þeirra stafrænni vegferð ef svo má á orði komast. Ásamt því sinni ég verkefnastjórnun á hinum ýmsu verkefnum Júní í heild.“

Gísli flutti heim frá New York í maí, þar sem hann stundaði mastersnám í Data Visualization við Parsons School of Design. Hann segir að námið hafi verið mjög framandi í samanburði við hagfræðinámið. „Ég fór úr því að greina vinnumarkaðinn yfir í að teikna ríkisstjórn Maldíveyja á kafi í sjónum.“

Gísli býr í miðbæ Reykjavíkur og kveðst njóta sína þar. „Mér finnst mjög gott að búa í miðbænum og vera nálægt öllu lífi.“ Hann fer í fjallaskíði á veturna og fluguveiði á sumrin og er mikið fyrir útivist. „Ég er nýkominn frá Blöndu. Þar var veiddur fiskur og mikið skemmt sér.“

Aðspurður hvort hann sakni ekki stórborgarlífsins kveðst hann ekki svo vera. „Mig hlakkar hins vegar mjög til að fara til New York í nóvember, í fyrsta skipti eftir að ég flutti heim. Þar ætla ég að horfa á vini mína hlaupa maraþonið þar í borg. Ég verð sterkur á hliðarlínunni.“

Viðtalið birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.