Margrét Arnardóttir, framkvæmdastjóri framleiðslu- og tæknisviðs Ölgerðarinnar hefur óskað eftir að láta af störfum hjá fyrirtækinu og samið um starfslok sín, að því er kemur fram í tilkynningu Ölgerðarinnar til Kauphallarinnar.

Margrét hefur stýrt sviðinu frá árinu 2016 og mörgum stærstu verkefnum fyrirtækisins síðustu ár, nú síðast umfangsmiklum fjárfestingum í húsnæði og vélbúnaði sem stórauka framleiðslugetu fyrirtækisins.

„Tími mikilla umbreytinga er að baki og Ölgerðin er nú allt önnur og öflugri en áður. Við höfum breytt verklagi og framleiðsluferlum, uppfært og innleitt ný kerfi, aukið öryggi starfsfólks í framleiðslu, sett upp nýjar vélar og byggt frá grunni einhvern fjölhæfasta framleiðslusal í heimi. Við höfum stóraukið framleiðsluna, gert margvíslegar tilraunir með nýjar vörur, aukið gæðin og unnið til fjölmargra verðlauna. Við höfum bætt vinnuaðstöðu og aðbúnað starfsfólks, sem myndar sterka liðsheild á þessum frábæra vinnustað,“ segir Margrét.

„Ég er þakklát mínu góða samstarfsfólki fyrir undanfarin ár, en fyrir mig er tímabært að snúa mér að nýju verkefni – nú þegar Ölgerðin er reiðubúin að mæta framtíðinni.“

Áður en Margrét hóf störf hjá Ölgerðinni hafði hún starfað sem verkefnastjóri vindorku hjá Landsvirkjun árin 2012-2016 og þar áður hjá Rio Tinto Alcan í Straumsvík frá árinu 2003, þar sem hún stýrði m.a. starfsemi kersmiðju og síðar endurhönnun á rafbúnaði vegna straumhækkunar í kerskálum.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar:

„Margrét hefur lyft grettistaki í þeim fjölmörgu verkefnum sem hún hefur leitt og stýrt innan Ölgerðarinnar síðustu ár og við erum þakklát fyrir þau góðu verk sem hún hefur skilað innan fyrirtækisins. Kraftur, áhugi og elja hafa einkennt störf hennar og hún skilar góðu búi til eftirmanns síns. Henni fylgja okkar bestu óskir í hverju sem hún tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.“