Ársmiðasala hefur aldrei verið meiri og við erum nú þegar búin að selja jafn mikið og við seldum samanlagt á síðustu sjö tímabilum,“ segir Styrmir Þór Bragason sem tók við sem framkvæmdastjóri Vals fyrr á árinu, en mikil eftirvænting er fyrir fótboltasumrinu, ekki síst vegna komu Gylfa Þórs Sigurðssonar í deildina.

Gylfi skrifaði undir hjá Val 14. mars síðastliðinn, en Valur spilar sinn fyrsta deildarleik annað kvöld gegn ÍA.

Styrmir hefur mikla reynslu úr viðskiptalífinu og hefur undanfarinn áratug starfað í ferðaþjónustu, nú síðast sem forstjóri Arctic Adventures. Hann segir mannlega þáttinn í starfinu hjá Arctic mikilvæga reynslu sem hjálpi mikið í nýju starfi.

Hann segist horfa á rekstur félagsins eins og fyrirtæki. Mikilvægt sé að horfa bæði á fjármála- og markaðshliðina. „Það er mikil áhersla á markaðsmálin hjá íþróttafélögum um þessar mundir og þetta hefur breyst mikið. Hefðbundnir miðlar eru dottnir út og fólk vill fá þetta beint til sín í gegnum samfélagsmiðla, að þetta sé allt hraðar og oftar. Það er þessi snertiflötur þar sem þú heldur fylgjendum upplýstum og býrð til stemningu.“

Styrmir er í sambúð og á einn sex ára strák í því sambandi. Hann á einnig tvær stelpur, 25 og 22 ára. „Ég er mikill fjölskyldumaður og reyni að eyða sem mestum tíma með henni. Ég hef mikinn áhuga á íþróttum og lifi og hrærist í því að fylgjast með íþróttum, þótt ég sé ekki þátttakandi lengur. Svo er það útiveran, ég stunda skíði mjög mikið og ferðalög almennt.“

Nánar er rætt við Styrmi í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild hér.