KPMG Law hefur nýlega fengið til starfa þrjá nýja sérfræðinga. Þetta eru þær Erla Arnardóttir, Gréta Stefánsdóttir og Tina Paic. Hjá KPMG Law starfa á þriðja tug lögmanna, lögfræðinga og annarra sérfræðinga. Verkefni stofunnar eru m.a. á sviði félagaréttar og fyrirtækjalögfræði auk skattaréttar og samkeppnisréttar.
Erla Arnardóttir býr að þekkingu og reynslu á félaga- og fjármunarétti. Síðast starfaði Erla sem lögfræðingur hjá Reykjavíkurborg á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Þar áður var hún lögmaður hjá Arion banka í yfir tíu ár.
Erla er með BA og MA gráðu frá Lagadeild Háskóla Íslands, er lögmaður með málflutningsleyfi fyrir héraðsdómstólum og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum auk þess að vera með leyfi til að gera eignaskiptayfirlýsingar.
Gréta Stefánsdóttir hefur hafið störf á lögmannsstofunni KPMG Law. Hún er með B.A. og M.A. gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands en bætti við sig alþjóðlegum LLM áföngum í University of Paris. Gréta starfaði áður sem lögfræðingur Starfsgreinasambands Íslands og hélt fyrirlestra og námskeið á vegum ASÍ fyrir ýmsar stofnanir. Þar áður starfaði hún sem lögfræðingur hjá Íslandsbanka í lögfræðiinnheimtudeildinni í nokkur ár.
Tina Paic hefur hafið störf hjá KPMG Law. Tina er viðskiptafræðingur að mennt með MA gráðu í skattarétti og reikningsskilum frá Háskóla Íslands. Frá árinu 2013 til ársins 2021 starfaði hún á álagningarsviði hjá Skattinum sem sérfræðingur í virðisaukaskatti.