„Áskoranir Samkaupa eru helst að leita leiða til að halda verði í lágmarki út til viðskiptavina á meðan útgjöld eru að aukast í formi birgjahækkana, verðbólgu og launahækkana,“ segir Rakel Másdóttir hefur tekið við stöðu verðstýringar- og verkefnastjóra hjá Samkaupum.
„Mitt verkefni er að fá enn betri yfirsýn, skýrari verkferla og leita hagkvæmari lausna í formi verðstýringar. Þá sinni ég aðkallandi verkefnum í formi hagræðingar í rekstri og hinum ýmsu lausnum," Bætir Rakel við.
Áður starfaði hún sem deildarstjóri í Gerplu þar sem hún hélt utan um deild 600 iðkenda, 30 starfsmanna og þjónustaði um 1200 foreldra. Hún sá einnig um markaðssetningu, samskipti og aðra verkefnastjórnun. Rakel segir starf sitt hjá Gerplu eiga margt sameiginlegt við starfið hjá Samkaupum.
„Íþróttastarf er metnaðar- og árangursdrifið og þar leggjast allir á eitt til að hámarka þjónustu og upplifun allra sem koma að starfinu. Þetta eiga fyrrum starf mitt og það nýja sameiginlegt.“
Hún segir áhugamál sín flest öll tengd útivist og hreyfingu, en Rakel er uppalin fimleikakona og hefur starfað innan fimleika- og íþróttahreyfingarinnar frá 13 ára aldri. Í dag situr hún í stjórnum UMSK og UMFÍ og er landsliðsþjálfari í hópfimleikum kvenna sem keppir á Evrópumótinu í haust.
„Ég er dugleg að læra nýjar íþróttir og er búin með grunnnámskeið í flestu sem er í boði á Íslandi. Þessa stundina fer ég vikulega í tennis með góðum vinkonum og í sumar verður golfið tekið föstum tökum.“
Nánar er rætt við Rakel í Viðskiptablaðinu sem kom út sl. miðvikudag, 14. febrúar.