Hugbúnaðarfyrirtækið PLAIO hefur ráðið til sín þrjá nýja starfsmenn í hóp hugbúnaðarþróunar og árangursdrifinna viðskiptatengsla. Markmiðið með ráðningunum er að styrkja enn frekar við vöxt félagsins í Evrópu og USA.

Viktoría Lind Gunnarsdóttir mun starfa sem „Customer Success Consultant“. Hún mun sjá um innleiðingu á PLAIO-kerfinu, ráðgjöf til viðskiptavina og tryggja árangur þeirra með PLAIO. Hún starfaði áður sem sérfræðingur á sviði viðskiptalausna hjá Deloitte. Viktoría er með B.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og stundar meistaranám meðfram vinnu í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands.

Tanya Brá Brynjarsdóttir er bakendaforritari og mun vinna sem slíkur innan veggja PLAIO. Hún er með B.Sc.-gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og er að leggja lokahönd á M.Sc. gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Chalmers-háskóla í Svíþjóð síðar á þessu ári.

Helena Sveinborg Jónsdóttir er forritari og sérfræðingur í gervigreind, hún mun vinna að innleiðingu OpenAI í PLAIO Coplanner sem og útvíkkun á öðrum algrímum. Hún hefur lokið tveimur B.Sc. gráðum frá Háskólanum í Reykjavík, tölvunarfræði og vélaverkfræði, og stundar nú nám í tölvunarfræði hjá Columbia-háskólanum í New York, með áherslu á gervigreind.

„Við erum spennt að taka á móti nýja starfsfólkinu okkar en það mun styrkja PLAIO mikið að fá til starfa þrjár öflugar konur sem munu drífa okkur áfram í tækni sem og í viðskiptatengslum. Sérþekking þeirra þriggja og reynsla mun nýtast vel í þeim verkefnum og ævintýrum sem fram undan eru hjá PLAIO,” segir Manuela Magnúsdóttir, þróunarstjóri PLAIO.