Sigrún Þorleifsdóttir hefur gengið til liðs við Attentus – mannauð og ráðgjöf sem meðeigandi, og mun veita ráðgjöf á sviði stjórnunar og samskipta, auk leiðtogaþjálfunar.
Fram kemur í tilkynningu frá Attentus uppgangur hafi verið undanfarið ár og með tilkomu Sigrúnar geti fyrirtækið boðið stjórnendum víðtækari lausnir en áður, meðal annars á sviði innri samskipta í fyrirtækjum og leiðtogaþróunar. Fyrr á þessu ári fékk Attentus hvatningarverðlaun FKA fyrir brautryðjendastarf á sviði mannauðsmála og þróun á viðskiptalausninni Mannauðsstjóri til leigu.
Sigrún hefur starfað sem stjórnandi í nær 20 ár hjá Eimskip, SH/Icelandic og víðar. Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnun og rekstri í alþjóðlegum fyrirtækjum, stefnumótun, áætlanagerð, árangursmælingum, breytingastjórnun, ráðgjöf, lóðsun, fræðslu og þjálfun stjórnenda og starfsmanna með aðferðum markþjálfunar. Þá var Sigrún einn af stofnendum Vendum ehf. – stjórnendaþjálfunar og starfaði þar frá 2010-2012.
Sigrún lauk M.S. gráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands árið 2010 og B.S. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst árið 1997. Auk þess lauk hún námi í stjórnendamarkþjálfun (e. Executive Coaching) frá Opna Háskólanum í Reykjavík og Coach University 2010 og hefur hlotið ACC vottun frá International Coach Federation.
Sigrún kennir leiðtogafræði í MBA námi Háskóla Íslands og hefur sérhæft sig í samskiptum innan fyrirtækja (Organizational Communication). Hún veitir ráðgjöf, flytur fyrirlestra og heldur námskeið um þróun leiðtogahæfni og árangursríkar samskiptaleiðir stjórnenda og starfsmanna í fyrirtækjum. Sigrún hefur einnig setið í ýmsum stjórnum félagasamtaka og fyrirtækja.