Sigurjón Örn Þórsson mun láta af störfum sem framkvæmdastjóri Kringlunnar þann 1. júní nk. En hann hefur gegnt starfinu í 17 ár. Í tilkynningu segir að Sigurjón hafi verið í fararbroddi á þeirri vegferð að verja, viðhalda og byggja upp stöðu Kringlunnar sem fjölsóttasta og vinsælasta verslunarkjarna landsins sem og þróa Kringluna í takt við kröfur tímans.
Frá 1. júní nk. mun Inga Rut Jónsdóttir taka við sem nýr framkvæmdastjóri Kringlunnar en hún hefur starfað hjá Reitum í 18 ár sem viðskiptastjóri með áherslu á leigusamninga í verslun, einkum í Kringlunni. Inga Rut hefur að auki setið í markaðsráði Kringlunnar undanfarin ár.
Sigurjón Örn Þórsson mun taka við nýju starfi sem framkvæmdastjóri nýs þróunarfélags sem mynda á um þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er á Kringlureitnum öllum sem afmarkast af Kringlumýrarbraut, Miklubraut, Kringlu- og Listabraut.
Megin hlutverk nýs þróunarfélags Kringlureitsins er að leiða áfram þróun svæðisins í samstarfi við alla hlutaðeigandi aðila og tryggja sem bestan og hraðastan framgang verkefnisins, skipulags- og framkvæmdalega.
Um er að ræða þróun og uppbyggingu samfélags með blöndu af íbúðum, verslunum, þjónustu, menningu og listastarfsemi miðsvæðis í Reykjavík. Svæðið allt er um 13 hektarar þar sem gert er ráð fyrir um 160 þúsund nýjum fermetrum og fjöldi íbúða getur orðið um 1.000.