„Þetta er skemmtilegt og spennandi starf“ segir Matthías Ólafsson, nýr framkvæmdastjóri Metanól stofnunarinnar í Evrópu.
Metanól stofnunin eru alþjóðasamtök metanólframleiðenda, - notenda og annarra fyrirtækja í metanóliðnaðinum. „Kjarna starfsemi stofnunarinnar er fyrst og fremst að vera fulltrúi metanóliðnaðarins innan Evrópusambandsins, koma á sjónarhorni iðnaðarins á framfæri við framkvæmdastjórn sambandsins og þingmenn Evrópuráðsins og að miðla upplýsingum til iðnaðarins um áhrif reglna af hálfu sambandsins.
Aðspurður hver séu helstu verkefnin framundan nefnir Matthías markmið Evrópusambandsins um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. „Það er verið að setja saman reglugerð hjá Evrópusambandinu sem heitir Fit for 55 og sem snýr að því að ná að minnka kolefnisfótspor um 55% fyrir árið 2030. Þetta er hluti af markmiðum sambandsins um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Allur iðnaðurinn þarf að vera með sýn á hvernig þau ætli að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Það að stuðla að því að framboð af endurnýjanlegu metanóli aukist er eitt helsta verkefnið.“
Hann þungamiðjuna í metanóliðnaðinum snúa að því hvernig hægt sé að vinna metanól á sjálfbæran máta og gera það á arðbæran máta. Það eru vissar áskoranir í slíkri framleiðslu. Það er mjög dýrt að framleiða metanól úr endurnýjanlegu rafmagni. Þá þarf að mæta vissum áskorunum um hvernig er hægt að byggja upp viðskiptamódelið og skalað upp framleiðsluna til að ná arðbærri fjárfestingu fyrir þá sem koma að verkefninu.“
Matthías vann áður hjá Carbon Recycling International hann telur að sú reynsla muni nýtast vel á nýjum vettvangi, þá sérstaklega á sviði sjálfbærni mála. „Ég held að það sé þessi áhersla á sjálfbærni og að þekkja sjálfbæra virðiskeðju metanóls sem ég hef frá fyrri störfum hjá CRI muni skila sér inn í nýtt starf.“
Matthías er búsettur í Brussel og hefur búið þar síðustu sex mánuði. Hann á tvö börn, eina þriggja ára stelpu og einn átta mánaða strák, og segir sinn frítíma meira og minna fara í að sinna börnunum og heimilinu en fjölskyldan er enn að koma sér fyrir á nýjum stað. Þá segir hann starfið fela í sér mikið af ferðalögum erlendis og nýtir hann þær oft í fjölskylduferðir. „Ég ferðast mikið útaf vinnunni og tek fjölskylduna oft með og við gerum þá ferðalag úr þeim ferðum.“
Viðtalið birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.