Steinar B. Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Domino’s Pizza á Íslandi. Hann tekur við af Magnúsi Hafliðasyni, sem hefur leitt félagið frá árinu 2021 og var á dögunum ráðinn framkvæmdastjóri N1. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Steinar sé ekki ókunnur félaginu eða vörumerkinu, en hann hóf störf árið 2006 sem framleiðslustjóri. Undanfarin ár hafi hann starfað sem framkvæmdastjóri framleiðslu- og innkaupa ásamt því að koma að stefnumótun og eiga sæti í framkvæmdastjórn félagsins.
Steinar er bakarameistari að mennt og er auk þess með MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Hann mun taka formlega við starfinu á næstu vikum.
„Ég er afar þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt með þessari ráðningu. Það er mér sérstakt gleðiefni að fá tækifæri til að hlúa áfram að þeirri einstöku menningu sem við höfum skapað hjá Domino’s með öllu því frábæra starfsfólki sem ég þekki svo vel og ber mikla virðingu fyrir.
Ég bý vel að því að hafa tekið þátt í stefnumótun og ákvarðanatöku síðastliðin ár ásamt því að vinna náið með öðrum stjórnendum og þá ekki síst Magnúsi. Ég lít því björtum augum til framtíðar og hlakka til þeirrar áskorunar að tryggja áfram stöðu Domino’s sem eitt sterkasta vörumerkið á íslenskum veitingamarkaði.“ segir Steinar.
Birgir Bieltvedt, stjórnarformaður Domino’s á Íslandi:
„Við þökkum Magnúsi vel unnin störf síðustu ár og þau hartnær 20 ár sem hann hefur starfað fyrir vörumerkið, bæði hér á landi og erlendis. Á sama tíma bjóðum við Steinar velkominn í nýtt hlutverk. Hann þekkir félagið og reksturinn vel, enda meðal reynslumestu stjórnenda þess og verið ábyrgur m.a. fyrir framleiðslu og vöruþróun í 12 ár ásamt því að hafa setið í framkvæmdastjórn félagsins. Steinar er bakari að mennt og starfaði sem slíkur áður en hann réði sig til Domino’s og þekkir því betur en flestir mikilvægi vörugæða og stöðugleika.“