Sveinn Friðrik Sveinsson hefur verið ráðinn rekstrarstjóri Arctic Trucks International ehf., þekkingarfyrirtækis í bifreiðaiðnaði sem byggir á íslensku hugviti. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Helstu verkefni félagsins eru nýsköpun í þróun breytinga á jeppum til að bæta aksturseiginleika, drifgetu og rekstraröryggi. Þetta er meðal annars gert í samstarfi við bílaframleiðendur, svo sem Toyota, Ford, Land Rover, Nissan, Isuzu, Mercedes-Benz og fleiri. Félagið gerir að auki sérleyfissamninga við félög í hverju landi sem annast breytingar fyrir hina ýmsu markaði.
Arctic Trucks er þekkt vörumerki á sínu sviði í heiminum og hafa lausnir fyrirtækisins skapað því mikla sérstöðu. Félagið rekur dótturfélag Bretlandi og hefur auk þess gert sérleyfissamninga við Arctic Trucks á Íslandi, Noregi, Finnlandi, Póllandi, Belgíu, Suður-Afríku, Sameinuðu arabísku fursta-dæmunum, Norður Ameríku og Arctic Trucks Polar sem annast ferðaþjónustu á pólsvæðum.
Sveinn starfaði áður sem fjármálastjóri hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann hefur víðtæka reynslu af fjármálastjórn og störfum á fjármálamarkaði. Hann hefur meðal annars starfað sem fjármálastjóri Bílanausts, forstöðumaður verðbréfamiðlunar Virðingar og forstöðumaður fjárstýringar Straums fjárfestingarbanka. Sveinn er með meistarapróf í fjármálum og löggildingu í verðbréfamiðlun, ásamt því að sitja í stjórn Vátryggingafélags Íslands sem varamaður. Hann hefur verið fjallabjörgunarmaður hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu frá árinu 2000.