Sylvía Rut Sigfúsdóttir hefur verið ráðin ritstjóri tímaritsins Nýtt Líf. Hún mun einnig sjá um ýmis önnur verkefni tengd tímaritum Birtings. Sylvía Rut hefur starfað hjá Pressunni frá því í júní 2013 en fyrirtækið hefur, eins og kunnugt er, fest kaup á öllu hlutafé í Birtingi og tekur nú við útgáfu á tímaritum fyrirtækisins. Sylvía Rut hefur ritstýrt Bleikt frá árinu 2014 og einnig Pressunni frá því á síðasta ári en lætur nú af þeim störfum. Sylvía Rut tekur við sem ritstjóri Nýs Lífs af Ernu Hreinsdóttur, sem lét af störfum um síðustu áramót, og hefur störf á næstu dögum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
„Ég er mjög spennt að takast á við þetta krefjandi verkefni. Nýtt Líf er tímarit sem á sér langa og áhugaverða sögu en fyrsta tölublaðið kom út árið 1978. Það verður skemmtilegt að halda áfram að þróa þetta tímarit og kynna fyrir lesendum spennandi nýjungar,“ segir Sylvía Rut.
Sylvía Rut er með meistaragráðu í fjölmiðlafræði frá Kaupmannahafnarháskóla og er einnig lærður förðunarfræðingur. Hún býr í Hafnarfirði ásamt eiginmanni sínum Snorra Sigurðssyni verkfræðingi og tveimur sonum.