Hugbúnaðarfyrirtækið exMon hefur ráðið til sín þrjá nýja sérfræðinga, þau Magdalenu Wojdysiak, Þröst Almar Þrastarson og Þórdísi Hildi Þórarinsdóttur. Þetta kemur fram í tilkynningu.
exMon er hugbúnaðarfyrirtæki sem framleiðir og þróar hugbúnaðinn exMon sem finnur villur eða frávik í tölvukerfum viðskiptavina til að koma í veg fyrir tekjuleka eða brotalamir í ferlum. exMon er dótturfyrirtæki Expectus á Íslandi, það var stofnað árið 2009 og starfa þar rúmlega 30 manns.
Magdalena er frá Póllandi og starfaði áður sem sérfræðingur í verðmati á fyrirtækjum og fjárfestingum fyrir Union Investment-sjóðinn í Varsjá. Þar sá hún meðal annars um daglega útreikninga á verðmæti hreinnar eignar og yfirlit með fjárstreymi tengdu viðskiptum sjóðsins. Þar áður vann hún hjá Millennium fjárfestingarbankanum þar sem hún sá um samningagerð og millifærslur í alþjóðlegum viðskiptum. Magdalena hefur líka unnið að hugbúnaðarþróun í banka- og fjármálastarfsemi og er með ISTQB-vottun í hugbúnaðarprófun. Þá hefur hún unnið hjá exMon í Póllandi við prófanir á gagnaflokkunarforritum. Magdalena er með meistaragráðu í stærðfræði frá Háskólanum í Lodz.
Þröstur Almar Þrastarson útskrifaðist með B.Sc.-gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands nú í sumar. Hann starfaði sem framendaforritari í nýsköpunarverkefni í gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna sumarið 2021. Þar sá hann um hugbúnaðarþróun og framendaforritun fyrir minimum viable products. Þröstur starfaði hjá icelandiconline.com sumarið 2020 þar sem hann sinnti hugbúnaðarþróun í bakenda vefsíðunnar. Meðan á námi stóð tók Þröstur virkan þátt í Nörd, nemendafélagi tölvunar- og hugbúnaðarverkfræðinema við HÍ, og var þar skemmtanastjóri námsárið 2020–21. Þá tók hann þátt í Níunni, netöryggiskeppni íslenskra ungmenna, árið 2020.
Þórdís Hildur Þórarinsdóttir útskrifaðist með B.Sc.-gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands 2017. Hún er með sérhæfingu í forritunarmálunum Java, Spring Boot, Git, JUnit, Docker og SOA. Hún hefur starfað í hugbúnaðarþróun hjá Infor í Svíþjóð frá 2019 við að þróa vettvang (e. platform) fyrir lýsigögn og örþjónustur.