Tveir nýir stjórnendur, Sigurður Ingi Halldórsson og Haukur Magnús Einarsson, hafa nýlega verið ráðnir til Banana og hafa þegar hafið störf.

Sigurður Ingi Halldórsson hefur verið ráðinn sem framleiðslustjóri Banana. Hann mun bera ábyrgð á allri framleiðslu fyrirtækisins fyrir verslanir og veitingamarkað og mun sitja í framkvæmdaráði Banana. Sigurður kemur til Banana frá Ora þar sem hann starfaði í 10 ár sem framleiðslustjóri. Þar áður starfaði hann hjá Matfugli sem framleiðslustjóri fullvinnsludeildar fyrir kjúklingaafurðir. Sigurður er menntaður kjötiðnaðarmaður og er með framhaldsnám í matvælaiðnfræði frá Danmörku.

„Ég er spenntur að koma til starfa hjá Bönunum og taka þátt í að byggja upp framleiðsludeild fyrirtækisins til framtíðar. Bananar er metnaðarfullt fyrirtæki með fjölbreytt vöruúrval og hæft starfsfólk sem hefur skýra framtíðarsýn,“ segir Sigurður Ingi.

Haukur Magnús Einarsson hefur verið ráðinn sem vöruhúsastjóri hjá Bönunum. Haukur verður ábyrgur fyrir vöruhúsarekstri og dreifingu Banana og mun hann sitja í framkvæmdaráði. Haukur hefur á undanförnum árum stýrt vefverslun Elko, auk þess að hafa haft umsjón með annarri vörudreifingu fyrirtækisins. Þar áður starfaði Haukur hjá heildsölunni Innnes sem dreifingarstjóri. Haukur er með B.Sc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst.

„Bananar er rótgróið fyrirtæki með langa sögu og ég hlakka til að nýta þekkingu mína og reynslu til þess að leiða vöruhúsið í þeim breytingum sem fram undan eru,“ segir Haukur.

Jóhanna Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Banana:

„Það er okkur mikill liðstyrkur að fá Sigurð Inga og Hauk í stjórnendateymi Banana. Ráðningarnar eru liður í innleiðingu á nýrri stefnu Banana, þar sem við stefnum á áframhaldandi vöxt og áherslu á að færa okkar viðskiptavinum gæða grænmeti og ávexti á sanngjörnu verði. Við erum sífellt að leita leiða til að bæta þjónustuna og ætlum að auka nýsköpun og vöruframboð í tilbúnum lausnum fyrir verslanir og veitingamarkað. Sigurður Ingi og Haukur hafa yfirgripsmikla þekkingu sem mun nýtast okkur vel í þeirri vegferð.“