Ragnhildur Guðmundsdóttir hefur verið ráðin birtingastjóri hjá birtinga- og ráðgjafafyrirtækinu Datera. „Ég held utan um innlendu hefðbundnu miðlana, hvort sem það er útvarp, vefur eða sjónvarp. Svo eru aðrar deildir innan Datera sem sjá um aðra miðla, þar á meðal samfélagsmiðla. Allar deildir vinna saman og mynda eina góða heild.“
Ragnhildur leggur mikla áherslu á persónuleg samskipti. „Tölvupóstar eru mikilvægur samskiptamáti í viðskiptum en ég tel að samskipti á gamla mátann, eins og að hitta viðskiptavinina og vera í símasambandi, geri viðskiptasambandið betra.“
Ragnhildur kemur til Datera frá Sýn þar sem hún starfaði sem viðskipta- og verkefnastjóri í auglýsingadeild síðastliðin þrjú ár. „Nú hef ég unnið báðum megin við borðið, hef unnið sem starfsmaður hjá fjölmiðli og er núna að starfa hjá birtingahúsi.“
Ragnhildur stofnaði og rak verslunina Maí í Garðabæ í fimm ár, en hún seldi reksturinn árið 2020. „Þetta var frábær skóli að reka fyrirtæki, allt frá því að búa til vörumerkið, reka verslunina sjálfa og vera með góða vefverslun.
Ragnhildur ver frítímanum með fjölskyldunni og segir fátt skemmtilegra en að vera á hliðarlínunni á íþróttaleikjum barna sinna. „Ég á þrjá unglinga sem öll eru í íþróttum og ég fór meðal annars tvisvar til Gautaborgar fyrrasumar að horfa á dóttur mína í handbolta og svo son minn í fótbolta.“
Ragnhildur er sjálf fyrrum íþróttakona. „Ég æfði áhaldafimleika alla mína æsku, en er frekar róleg í dag þegar kemur að líkamsrækt. Ég stunda yoga og finnst mjög gott að fara í heitan og kaldan pott eftir vinnu. Á sumrin hef ég gaman af því að fara í golf og reyni að vera meira út í náttúrunni.“
Nánar er rætt við Ragnhildi í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.