Hátæknifyrirtækið Sæbýli tilkynnti í dag um ráðningu Völu Valþórsdóttur í stöðu forstjóra fyrirtækisins en hún mun hefja störf 1. september næstkomandi.
Sæbýli var stofnað árið 1993 af Ásgeiri Guðnasyni og sérhæfir sig í þróun framleiðsluaðferða við landeldi á sæeyrum (e. abalone).
Stofnandi Sæbýlis, Ásgeir Guðnason, sem áður gegndi hlutverki forstjóra mun í kjölfar ráðningarinnar taka við stöðu framkvæmdastjóra rannsóknar og þróunar þar sem hann mun einbeita sér að áframhaldandi þróunar- og nýsköpunarstarfi fyrirtækisins.
Vala er lögfræðingur að mennt og hefur umfangsmikla reynslu af viðskiptum og stjórnun. Áður starfaði hún sem viðskiptaþróunarstjóri hjá Landsvirkjun þar sem hún bar ábyrgð á tækifærasköpun væntanlegra viðskiptavina Landsvirkjunar og studdi uppbygginu grænna iðngreina. Þar áður var Vala í framkvæmdastjórn 66°Norður þar sem hún gegndi stöðu rekstrar- og sölustjóra.
„Það er sannur heiður að leiða hið frábæra teymi sem nú þegar starfar hjá Sæbýli“
„Það er mikill ávinningur að fá Völu inn sem forstjóra til að leiða næsta fasa í vexti Sæbýlis. Hún býr yfir margþættri og alþjóðlegri reynslu úr fyrri störfum sem mun án efa koma sér vel þegar kemur að komandi sókn fyrirtækisins inn á nýja markaði. Sæbýli hlakkar til samstarfs við Völu í þeirri markvissu stefnu um að auka framleiðslu og árangur fyrirtækisins.“ segir Sigurður Pétursson, stjórnarformaður Sæbýlis.
Fyrirtækið hefur þróað sjálfbæra hátækniaðferð við ræktun sæeyrna sem byggir á lóðréttu eldiskerfi. Starfsemin er í Grindavík þar sem heitur jarðsjór og endurnýjanleg orka frá Reykjanesvirkjun er nýtt til að knýja framleiðslu fyrirtækisins. Stefnt er á uppbyggingu áframeldis á Reykjanesi á næsta ári.
„Það er sannur heiður að leiða hið frábæra teymi sem nú þegar starfar hjá Sæbýli, saman munum við skrifa þennan nýja kafla og raungera þær metnaðarfullu áætlanir sem fyrir liggja, enda eru vaxtamöguleikarnir gífurlegir,“ segir Vala Valþórsdóttir, nýráðinn forstjóri Sæbýlis.