Starfsemi Origo hefur hingað til verið skipt upp í tvö svið, hugbúnaðarlausnir annars vegar og þjónustulausnir hins vegar, en nú verður til nýtt svið sem kallað verður innviðir og orka að sögn Ara Daníelssonar, forstjóra Origo.
Einn af vaxtabroddum fyrirtækisins undanfarin ár hefur verið að þjónusta vaxandi uppbyggingu í gagnaverum á Íslandi. Þá seldi Origo stærstu og öflugustu tölvu landsins, NVIDIA DGX SuperPod, til DeCode Genetics fyrr á árinu en þar var um að ræða fjárfestingu upp á nærri þrjá milljarða króna.
Aðilar sem horfi til Íslands sem áhugaverðan kost fyrir staðsetningu rekstrarlega, hvort sem það er fyrir gagnaver eða aðra starfsemi, horfi til þjónustu Origo og þeirra birgja. Ari segir þau sjá tækifæri í að einbeita sér enn frekar að slíkum rekstri en mikill vöxtur hafi verið á því sviði á síðustu árum og veltan verði nærri fimm milljarðar á þessu ári.
„Það er talað um vaxandi orkuskort á Íslandi þannig nú fara aðilar að horfa til nýrrar tækni til að framleiða orku, geyma orku staðbundið, og nýta þegar þeir þurfa á að halda,“ segir Ari en lykilbirgir Origo, Schneider Electric, er eitt af stærstu iðnaðarfyrirtækjum heims á sviði orkuinnviða. „Við lítum á það sem part af okkar kjarnastarfsemi að skaffa og þjónusta þessa grunninnviði fyrir samfélagið.“
Þurfa að þjálfa breytingavöðvana
Upplýsingatækni hafi fyrir löngu tekið yfir heiminn en margt sé að breytast, sem fyrirtæki og einstaklingar þurfi að bregðast við, til að mynda þegar kemur að væntanlegu Evrópuregluverki um gervigreind. Þá eru kröfur í öryggismálum að aukast þar sem netöryggi sé í raun orðið partur af hernaði.
„Þetta er ekki lengur einkamál net- eða öryggisstjóranna sem eru ráðnir sérstaklega til vinnu, þetta er málaflokkur sem hver einasti stjórnarmaður, sérstaklega í kerfislega mikilvægum fyrirtækjum, innviðafyrirtækjum, orkufyrirtækjum, símafyrirtækjum og sérstaklega fjármálafyrirtækjum, ber í raun ríka persónulega ábyrgð á.“
Á sama tíma og áskoranir eru víða séu tækifæri í hverju horni til að sækja fram. Breytingar séu þar nauðsynlegar og af hinu góða.
„Upplýsingatæknimarkaðurinn er mjög kvikur og félög eins og Origo verða að þjálfa sig í breytingavöðvunum, eins og ég kalla það. Við verðum að vera óhrædd við að breyta til,“ segir Ari.
Nánar er rætt við Ara í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.