VÍS hagnaðist um 229 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs en til samanburðar nam hagnaður sama tímabils í fyrra 73 milljónum króna. Afkoma af vátryggingasamningum á tímabilinu var neikvæð um 645 milljónir, samanborið við neikvæða afkomu upp á 269 milljónir á sama tíma í fyrra. Samsett hlutfall fjórðungsins var 110,4%, en var 104,7% á sama tíma á síðasta ári.

Tekjur af vátryggingasamningum á tímabilinu voru 6.177 milljónir, samanborið við 5.779 milljónir í fyrra. Afkoma fjárfestinga var 1.058 milljónir, samanborið við 205 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS, segir í uppgjörstilkynningu að hagnaður fyrsta ársfjórðungs hafi numið 229 milljónum þrátt fyrir tjónaþungt tímabil.

„Fyrsti ársfjórðungur er jafnan tjónaþungur enda endurspeglast tíðarfarið vel í okkar bókum. Ríflega hundrað ára kuldamet féll á tímabilinu en það var viðvarandi kuldatíð í sex vikur, eða frá 7. desember til 19. janúar. Þetta var kaldasta sex vikna tímabil í Reykjavík síðan árið 1918 þegar frostaveturinn mikli reið yfir landið. Tvö stórtjón voru hjá okkur á tímabilinu sem telja tæp 4% af tjónahlutfalli; ábyrgðartjón og brunatjón. Við greiddum viðskiptavinum okkar 4,5 milljarða í tjónabætur á fjórðungnum.“

VÍS hagnaðist um 229 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs en til samanburðar nam hagnaður sama tímabils í fyrra 73 milljónum króna. Afkoma af vátryggingasamningum á tímabilinu var neikvæð um 645 milljónir, samanborið við neikvæða afkomu upp á 269 milljónir á sama tíma í fyrra. Samsett hlutfall fjórðungsins var 110,4%, en var 104,7% á sama tíma á síðasta ári.

Tekjur af vátryggingasamningum á tímabilinu voru 6.177 milljónir, samanborið við 5.779 milljónir í fyrra. Afkoma fjárfestinga var 1.058 milljónir, samanborið við 205 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS, segir í uppgjörstilkynningu að hagnaður fyrsta ársfjórðungs hafi numið 229 milljónum þrátt fyrir tjónaþungt tímabil.

„Fyrsti ársfjórðungur er jafnan tjónaþungur enda endurspeglast tíðarfarið vel í okkar bókum. Ríflega hundrað ára kuldamet féll á tímabilinu en það var viðvarandi kuldatíð í sex vikur, eða frá 7. desember til 19. janúar. Þetta var kaldasta sex vikna tímabil í Reykjavík síðan árið 1918 þegar frostaveturinn mikli reið yfir landið. Tvö stórtjón voru hjá okkur á tímabilinu sem telja tæp 4% af tjónahlutfalli; ábyrgðartjón og brunatjón. Við greiddum viðskiptavinum okkar 4,5 milljarða í tjónabætur á fjórðungnum.“

VÍS hafi aukið sölu skírteina í fyrsta sinn í sex ár í fjórðungnum, enda hafi verið rík áhersla á sókn hjá félaginu. „Við höfum umbreytt nálgun okkar í sölu hjá félaginu með með nýju skipulagi og áherslu á landsbyggðina. Þá hafa aukin umsvif í samfélaginu einnig leitt til fjölgunar trygginga í ákveðnum atvinnugreinum.“

Einskiptiskostnaður á tímabilinu hafi numið um 130 milljónum og megi þar helst nefna forstjóraskipti, ráðgjafakostnað vegna viðræðna um kaup á hlutabréfum í Fossum fjárfestingarbanka og húsnæðisbreytingar fyrir SIV eignastýringu. „Þrátt fyrir verðbólgu og kjarasamningsbundnar launahækkanir, þá erum við að halda í við kostnaðinn – en án einskiptisliða erum við nánast með sömu krónutölu milli ára. Hagræðing í rekstri sýnir að við erum á réttri leið. Samsett hlutfall fjórðungsins er 110,4% (108,3% án einskiptisliða) en var 104,7% á sama tíma í fyrra. Horfur ársins eru óbreyttar – enda er tryggingarekstur sveiflukenndur og horfurnar taka mið af því. Gert er ráð fyrir að samsett hlutfall ársins verði á bilinu 96-98%,“ segir Guðný Helga.

„Fjárfestingartekjur í fjórðungnum námu tæpum 1,2 milljörðum og nafnávöxtun var 2,7%. Allir eignaflokkar skiluðu jákvæðri afkomu og var ávöxtun helstu eignaflokka umfram markaðsávöxtun. Önnur skuldabréf hækkuðu mest og skráð hlutabréf þar á eftir. Þess má geta að SIV eignastýring réð til sín tvo starfsmenn í fjórðungnum. Félagið er því vel í stakk búið til að hefja starfsemi um leið og það fær starfsleyfi sem rekstraraðili sérhæfðra sjóða með viðbótarheimild til eignastýringar,“ bætir hún við.

Breytt skipurit og ný framkvæmdastjórn

Um klukkustund áður en VÍS sendi frá sér uppgjör fyrsta ársfjórðungs tilkynnti félagið um breytt skipurit. Nýja skipuritið og framkvæmdastjórn sem mynduð hefur verið í kringum það er eftirfarandi:

  • Sala og þjónusta: Þjónusta, sala, markaðsmál og upplifanir, einstaklings- og fyrirtækjaviðskipti, stofnstýring og verðlagning tilheyra nú sviðinu sala og þjónusta. Sókn og sala, verðlagning og þjónusta eru á sama sviði. Markmið sviðsins er að tryggja framúrskarandi þjónustu og að viðskiptavinir VÍS séu með rétta og viðeigandi vernd.
  • Tryggingar og tjón: Tjónadeildir, vöruþróun og viðskiptaumsjón tilheyra nú nýju sviði sem nefnist tryggingar og tjón. Markmið sviðsins er að þróa tryggingar með þarfir viðskiptavina að leiðarljósi og að vera traust bakland í óvissu lífsins, þannig að viðskiptavinir sem verða fyrir tjóni, fái sem bestu þjónustu við úrlausn sinna mála.
  • Fjármál og tækni: Fjármál, stafrænar lausnir og upplýsingaöryggi tilheyra sviðinu fjármál og tækni. Þar sem viðræður standa yfir um kaup VÍS á öllu hlutafé í Fossum fjárfestingarbanka er beðið með ráðningu á framkvæmdastjóra sviðsins. Reynir Jóhannsson, forstöðumaður fjármála, og Ingólfur Þorsteinsson, forstöðumaður stafrænna lausna, stýra daglegum rekstri deildanna.
  • Viðskiptagreind: Þá verður einnig lögð áhersla á nýtingu gagna í ákvarðanatöku til þess að auka skilvirkni í starfsemi félagsins. Forstöðumaður viðskiptagreindar mun því taka sæti í framkvæmdastjórn.

Eftirfarandi breytingar hafa svo verið gerðar á framkvæmdastjórn félagsins:

  • Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir​ hefur verið ráðin framkvæmdastjóri sölu og þjónustu. Ingibjörg Ásdís var forstöðumaður markaðsmála og upplifana hjá VÍS en hún hóf störf hjá félaginu árið 2021. Áður starfaði hún meðal annars hjá Icelandair sem forstöðumaður þjónustu og notendaupplifana og sem svæðisstjóri flugfélagsins á Íslandi. Ingibjörg er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og BS-gráðu í viðskiptafræði frá sama skóla.
  • Sindri Sigurjónsson ​hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri trygginga og tjóna. Sindri starfar nú sem framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins Expectus þar sem hann starfar við ráðgjöf og stefnumótun hjá mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins. Sindri er með meistaragráðu (M.Sc.) í aðgerðargreiningu frá London School of Economics og með BS-gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.
  • Jón Árni Traustason, forstöðumaður viðskiptagreindar, mun taka sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Jón Árni hóf störf hjá VÍS árið 2018 en hann starfaði meðal annars áður hjá Skeljungi sem forstöðumaður upplýsingatækni og viðskiptagreindar. Jón Árni er með meistaragráðu (M.Sc) í fjármálastærðfræði frá háskólanum í Uppsala í Svíþjóð og BS-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands.

Auk fyrrgreindra sitja í framkvæmdastjórn Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri, og Anna Rós Ívarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs og menningar.

„Undanfarin misseri hefur rík áhersla verið á sókn félagsins og framúrskarandi þjónustu – og nú viljum styðja enn frekar við þá vegferð. Við höfum breytt skipulagi félagsins og myndað kröftuga framkvæmdastjórn sem ég er fullviss um að eigi eftir að verða öflugir liðsmenn í áframhaldandi sókn félagsins á tryggingamarkaði. Ég hlakka til komandi tíma – og samstarfsins með nýrri framkvæmdastjórn,“ segir Guðný Helga í uppgjörstilkynningunni um breytt skipulag og nýja framkvæmdastjórn.

Viðræðum VÍS og Fossa miði vel

Loks kemur Guðný Helga inn á stöðu kaupa VÍS á Fossum fjárfestingarbanka. „Áreiðanleikakannanir eru yfirstaðnar og nú standa yfir viðræður um kaupin og miðar þeim vel áfram. Vert er að geta þess að kaupin yrðu háð skilyrðum um samþykki eftirlitsstofnana og samþykki hluthafa.“