Icepharma, sem er þjónustufyrirtæki á heilbrigðismarkaði, hagnaðist um 894 milljónir króna á síðasta rekstrarári, samanborið við 703 milljónir króna árið áður. Þetta kemur fram í ársreikningi.

Félaginu er skipt upp í þrjú tekjusvið auk stoðsviða. Lyfjasvið markaðssetur og selur lyf frá erlendum lyfjafyrirtækjum og veitir þeim margvíslega tengda þjónustu. Heilbrigðissvið sér um sölu, markaðssetningu og tækniþjónustu í lækningatækjum og heilbrigðisvörum. Heilsu og íþróttasvið er þriðja tekjusviðið sem markaðssetur og selur íþróttavörur, vítamín, bætiefni og heilsufæði til smásöluaðila og í gegnum vefverslun.

Rekstrartekjur félagsins námu 14,3 milljörðum króna og eignir námu tæplega 3,7 milljörðum króna. Eigið fé félagsins var 1,58 milljarðar króna í árslok 2021 og eiginfjárhlutfall 45,3%.

Félagið greiddi 400 milljónir króna í arð til hluthafa sinna á árinu 2021 vegna rekstrarársins á undan. Hlutafélagið Ósar – lífæð heilbrigðis á 99,99% hlut í félaginu, en Ósar er í meirihlutaeigu feðganna Kristjáns Jóhannssonar og Jóhanns Inga Kristjánssonar.

Hörður Þórhallsson er forstjóri Icepharma.