Nova hagnaðist um 69 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi og lækkaði hagnaður um 63 milljónir frá sama fjórðungi í fyrra. Í árshlutauppgjöri kemur fram að lækkunin milli ára skýrist helst af hærri fjármagnsgjöldum, sem skýrist m.a. af áhrifum hækkandi verðbólgu. EBITDA var 832 milljónir króna á fjórðungnum, samanborið við 728 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. EBITDA vöxtur var því 14,8%.
Tekjur Nova námu 3,2 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi 2022, samanborið við 2,9 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Tekjuvöxtur milli ára var því 7,1%. Veltufé frá rekstri á fjórðungnum er 832 milljónir króna, samanborið við 725 milljónir króna á sama tímabili 2021.
Vaxtaberandi skuldir, leiguskuldbindingar og aðrar skuldir í lok tímabilsins námu samtals 10,8 milljörðum króna í lok tímabilsins og hafa lækkað um samtals 4,2 milljarða frá áramótum. Hrein fjármagnsgjöld voru 254 milljónir króna á tímabilinu og hækka um 165 milljónir króna á milli ára. „Hækkunin skýrst m.a. af hærri stöðu leiguskuldbindinga frá fyrra ári, hærri vöxtum á markaði m.v. fyrra ár sem og mikilli verðbólgu á tímabilinu,“ segir í uppgjörstilkynningu.
Heildarfjárfestingar á fyrstu sex mánuðum ársins 2022 námu rúmlega milljarði króna. Eiginfjárhlutfall félagsins var 38,6% í lok annars ársfjórðungs og eigið fé 8,7 milljarðar króna.
„Ánægjulegt að sjá fjölgun viðskiptavina á sama tíma og brottfall hefur minnkað á milli ára. Með því að hlúa að ánægju Nova liðsins, viðskiptavina,byggja upp sterka innviði ásamt því að vera með besta díllinn hefur það skilað sér í excelnum.
Við erum nútímalegur valkostur og fyrsta val 50 ára og yngri. Verðmætur hópur sem vex með okkur og vill kaupa meiri þjónustu af Nova. Hópurinn kann að meta það sem við höfum fram að færa hvort sem það er myndlyklalaust líf, úrlausn eða nýjustu þjónustuna okkar Sjálfsvörn. Við viljum vera fyrst inn í framtíðina með snjallar lausnir.
Nova Klúbburinn er með stöðugan tekjuvöxt eða 6,8% á fyrstu 6 mán í samanburði við fyrra ár. Fjölgun viðskiptavina í farsíma- og netþjónustu er þar helsta skýring og fjölgaði viðskiptavinum um 6,7%. Vörusala minnkar þar sem við teljum að helsta skýring er að neysla fer í ferðalög frekar en raftæki sem sést á að reikitekjur aukast á sama tímabili.
Nova hefur frá upphafi verið í farabroddi í innleiðingu nýjustu tækni og er komið lengst í uppbyggingu 5G á Íslandi. Í dag býður Nova 5G í 19 bæjarfélögum og á stór höfuðborgarsvæinu. Settir hafa verið upp 70 sendar og áætlum við að í árslok verði þeir 106. Við munum halda áfram og á árinu munu 9 sveitarfélög bætast við ásamt sumarbúastaðasvæðum. Með góðum rekstri höfum við á ársfjórðungnum unnið enn frekar í að styrkja innviði okkar. Fjárfestingar á fyrri helmingi ársins voru milljarður sem er í takt við áætlanir. Á fjórðungnum var undirritað samstarf við Ljósleiðaran sem og við Sýn. Báðir samningar flýta enn frekar fyrir uppbygginu á 5G, tryggja hagræði og skalanleika inn í framtíðina,“ er haft eftir Margréti Tryggvadóttur, forstjóra Nova, í uppgjörstilkynningu.