Drífa ehf, rekstrarfélag Icewear, hagnaðist um 483 milljónir króna á síðasta ári, samanborið við rúmlega 180 milljóna króna hagnað á árinu 2020. Heildarvelta félagsins 2021 nam tæplega 3,3 milljarða króna og jókst um 82% frá árinu áður.

Á árinu 2021 var félaginu skipt í rekstrarfélag og fasteignafélag og voru fasteignir og fasteignatengd einkahlutafélög færðar í Eignarhaldsfélag ATHE ehf. miðað við 1. janúar 2021.

Félagið nýtti sér úrræði stjórnvalda á árinu, meðal annars viðspyrnustyrk og hlutabótaleið, sem gerði það að verkum að félagið hagnaðist um 160 milljónir meira á árinu 2021 samanborið við árið 2019 fyrir Covid, þrátt fyrir 100 milljón króna minni veltu.

Eigið fé í Drífu var 817 milljónir á síðasta ári, samanborið við 224 milljónir árið áður. Stjórn félagsins mun leggja til arðgreiðslu upp á 250 milljónir króna, en í lok árs var Ágúst Eiríksson eigandi að 90% hlut í félaginu.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.