Reykjavíkurborg sendi fyrr í dag frá sér fréttatilkynningu varðandi nýjar aðgerðir í leikskólamálum sem samþykktar voru á fundi borgarráðs í dag. Í tilkynningu kemur fram að „Reykjavíkurborg [standi] fyrir mestu uppbyggingu í leikskólamálum í áratugi með Brúum bilið átakinu og [muni] átakið skila 553 nýjum plássum fyrir börn í leikskólum borgarinnar á þessu ári.“
Sjá einnig: Á annað þúsund barna munu enn bíða 2026
Í mars síðastliðnum samþykkti borgarráð tillögur stýrihóps um uppbyggingu leikskóla þar sem gert var ráð fyrir að allt að 850 ný leikskólarými yrðu tekin í notkun á árinu 2022. Nýjar áætlanir borgarinnar gera því ráð fyrir 35% færri leikskólaplássum á árinu. Í vor greindi Viðskiptablaðið frá því að þau 850 rými sem gert væri ráð fyrir á árinu samsvari 2,6 sinnum þeim fjölda rýma sem bætt hefði verið við síðustu þrjú árin á undan, en á árabilinu 2019 til 2021 hefði leikskólaplássum í borginni fjölgað um 320. Þá var einnig sagt frá því að í mars á þessu ári hefði leikskólaplássum verið búið að fjölga um 130 á árinu, en af þeim 720 leikskólarýmum sem gert væri ráð fyrir til viðbótar væru 300 eða 42%, annaðhvort enn í undirbúningi eða á stigi hönnunar í byrjun mars.
Í fréttatilkynningunni, sem send var út í dag, er útlistað nánar hvar og hvernig leikskólarýmum verði fjölgað á árinu. Út frá leiðréttum tölum Reykjavíkurborgar, má ætla að 263 leikskólarými hafi þegar verið tekin í notkun á árinu, frá og með næstu viku, og það sem eftir sé ársins muni bætast við 299 ný rými. Á haustmánuðum hyggst borgin því rúmlega tvöfalda þann árangur sem þegar hefur náðst í fjölgun leikskólarýma á árinu, en síðan tillögur stýrihóps um uppbyggingu leikskóla voru samþykktar í borgarráði í mars hefur leikskólaplássum einungis fjölgað um 133.
Leiðréttar tölur frá Reykjavíkurborg yfir ný leikskólapláss í Reykjavík á árinu 2022 samkvæmt áætluninni Brúum bilið:
- Stækkun við leikskólann Gullborg og leikskólann Funaborg (47)
- Ævintýraborg á Eggertsgötu – var opnuð í mars (80)
- Bríetartún – var opnað í apríl (60)
- Brákarborg á Kleppsvegi – verður opnuð á mánudag (76)
- Nauthólsvegur – verður opnaður í september (100)
- Múlaborg – verður opnuð í október (60)
- Hagaborg – verður opnuð í nóvember (30)
- Vogabyggð – verður opnuð í desember (100)
- Samtals: 553 pláss