Japanski bílaframleiðandinn Honda og Suður-Kóreski rafhlöðuframleiðandinn LG Energy Solutions ætla að verja 4,4 milljörðum Bandaríkjadala í nýja rafhlöðuverksmiðju í Bandaríkjunum, eða sem nemur 624 milljörðum króna. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.
Þetta mun vera fyrsta rafhlöðuverksmiðja Honda í Bandaríkjunum. Bílaframleiðandinn hefur sagst ætla að hætta allri framleiðslu á bílum sem knúnir eru áfram af jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040.
Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa að undanförnu beitt auknum þrýstingi á rafbílaframleiðendur að hætta að kaupa aðföng fyrir rafbíla frá Kína. Sá þrýstingur kemur einna helst í gegnum nýjustu löggjöf Joe Biden Bandaríkjaforseta, „US Inflation Reduction Act“.
LG mun eiga 51% hlut í verksmiðjunni en Honda 49% og er stefnt að því að bygging verksmiðjunnar hefjist snemma á næsta ári. Búist er við því að fjöldaframleiðsla verksmiðjunnar á Lithium-ion rafhlöðum geti hafist fyrir lok árs 2025.