Iceland Pelagic hagnaðist um 68 milljónir árið 2021. Til samanburðar hagnaðist félagið um 235 milljónir árið 2020, að því er kemur fram í ársreikningi. Iceland Pelagic er sölufyrirtæki sem hefur mest selt frosnar uppsjávarafurðir á erlenda markaði, aðallega inn á Austur-Evrópu og Afríku.
Tekjur félagsins jukust um rúma sex milljarða á milli ára. Stafar hún að mestu leyti af góðri loðnuvertíð á árinu samanborið við loðnuvertíðir síðustu tvö árin. Aukin sala á afurðum eigendafélagsins Brims á árinu hafði einnig jákvæð áhrif á reksturinn. Brim keypti þriðjungs hlut í félaginu á miðju ári 2020 af Ísfélagi Vestmannaeyja og Skinney-Þinganes. Eiga fyrirtækin þrjú nú jafnan 33% hlut í Iceland Pelagic.
Afkoma félagsins dróst saman á milli ára, fór úr 235 milljónum króna niður í 68 milljónir eins og áður segir. Þar kemur helst til mat á niðurfærsluþörf viðskiptakrafna félagsins en einnig neikvæður gengismunur ársins sem hefur áhrif á hagnaðinn.
Dótturfélag Iceland Pelagic ehf., Blumaris, var selt á árinu og nam söluhagnaðurinn rúmum 70 milljónum króna. Söluverð Blumaris var greitt eigendum sem arður í upphafi árs 2021.
Eignir félagsins námu 4,6 milljörðum í lok árs og var eigið fé 659 milljónir króna. Skuldir félagsins námu tæpum fjórum milljörðum króna í lok árs 2021 og var eiginfjárhlutfallið því 14,2%, en til samanburðar var það 18,4% árið áður.
Framkvæmdastjóri Iceland Pelagic er Magnús Sigurðsson.