Samkvæmt ársreikningi SID ehf. frá árinu 2021 er Lyfja hf. metið á 6,5 milljarða króna, en SID keypti Lyfju árið 2018 fyrir um 4,2 milljarða króna. Þannig hefur virði Lyfju aukist um 55% í gegnum eignarhaldið.

SID hefur auk þess fengið 855 milljónir króna greiddar í gegnum Lyfju, þar af 355 milljónir í formi arðgreiðslna og 500 milljónir í formi lækkunar hlutafjár. Þegar virðisaukningin, arðgreiðslurnar og lækkun hlutafjár er allt lagt saman kemur í ljós að SID hefur hagnast um 3,2 milljarða króna á kaupunum, sem jafngildir 76% ávöxtun miðað við 4,2 milljarða króna kaupverð.

SID er í 70% eigu framtakssjóðsins SÍA III slhf. sem er í rekstri hjá Stefni, dótturfélagi Arion banka. Fjárfestarnir Daníel Helgason og Ingi Guðjónsson eiga 15% hlut í Lyfju hvor um sig í gegnum félög sín, Þarabakka ehf. og Kask ehf., en Ingi er annar stofnenda Lyfju sem hóf starfsemi árið 1996.

Frá því að SID tók við rekstri Lyfju hefur hagur félagsins vænkast. Samkvæmt ársreikningum hafa sölutekjur félagsins aukist um fjórðung á milli áranna 2018 og 2020, farið úr 9 milljörðum í tæplega 11,5 milljarða. Hagnaður félagsins hefur aukist um tæp 15% á sama tímabili, farið úr því að vera 325 milljónir árið 2018 í 440 milljónir árið 2020.