Fjárfestingarfélagið Ursus, sem er alfarið í eigu Heiðars Guðjónssonar fráfarandi forstjóra Sýnar, hagnaðist um 820 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 316 milljónir árið áður. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins.

Hagnaður félagsins í fyrra má einkum rekja til ríflega 70% hækkunar á hlutabréfaverði Sýnar í fyrra en 9,2% hlutur Ursus var bókfærður á 1,8 milljarða samanborið við 1,1 milljarð árið áður. Ursus átti í lok síðasta árs 27,1 milljónir að nafnverði í Sýn en var auk þess með um fimm milljónir hluti í gegnum framvirka samninga og keypti 2 milljónir hluti í síðasta mánuði.

Heiðar seldi allan 12,7% hlut Ursus í Sýn fyrir ríflega 2,2 milljarða króna í morgun til nýstofnaða fjárfestingafélagsins Gavia Invest. Á sama tíma var tilkynnt að Heiðar muni láta af störfum fyrir lok þessa mánaðar.

Sjá einnig: Heiðar selur allt í Sýn og hættir sem forstjóri

Ursus á 4,4% beinan hlut í HSV eignarhaldsfélagi sem fer með helmingshlut í HS Veitum. Eignarhluturinn var bókfærður á 549 milljónir í lok síðasta árs.

Eignir Ursus voru bókfærðar á rúmlega 3,4 milljarða króna í lok síðasta árs. Eigið fé nam 1,3 milljörðum samanborið við hálfan milljarð árið áður.