Í nýjasta tölublaði Eftir vinnu er fjallað um fjárfestingar Hollywood leikarans Ryan Reynolds. Reynolds hefur verið duglegur að fjárfesta í fyrirtækjum frá heimalandinu Kanada. Hann er meðal hluthafa í eignastýringarfyrirtækinu Wealthsimple sem safnaði 750 milljónum dala í fjármögnunarumferð fyrir tveimur árum og var í kjölfarið metið á 5 milljarða dala. Reynolds er ekki eini þekkti hluthafi félagsins því kanadíski rapparinn Drake á hlut í því sem og kanadíski leikarinn Michael J. Fox.

Reynolds lagði einnig fé inn í kanadíska félagið 1Password, en eins og nafn þess gefur vísbendingu um býður félagið upp á hugbúnaðarlausn sem heldur utan um lykilorð. Félagið safnaði 620 milljónum dala í fjármögnunarumferð í fyrra og var í kjölfarið metið á 6,8 milljarða dala.

Góð tilfinning fyrir fjártækni

Nýjasta fjárfesting Reynolds er svo í fjártækni. Að sjálfsögðu er um að ræða kanadískt fjártæknifélag sem heitir Nuvei og er með höfuðstöðvar í Montreal.

Reynolds hefur látið hafa eftir sér að hann sé enginn töframaður þegar kemur að fjárfestingum og velgengni hans í viðskiptum byggist á því að hann fjárfesti eftir tilfinningu. Er tilkynnt var um fjárfestingu hans í Nuvei sagði hann að hann hefði álíka mikið vit á fjártækni og hann hafði á gini og fjarskiptum fyrir nokkrum árum síðan. Stjórnenda teymi fjártæknifélagsins sé sérlega greint og vinnusamt og það sé kominn tími til að kanadísk fyrirtæki fái sömu athygli og bandarísk tæknifyrirtæki fái.

Spennandi verður að sjá hvort nýjasta fjárfesting Reynolds í fjártækni skili honum svipuðum fjárhagslegum ávinningi og hans fyrri fjárfestingar. Hann virðist a.m.k. hafa haft góða tilfinningu fyrir Nuvei og miðað við tilfinninganæmni hans í fyrri fjárfestingum væri margt óvæntara en ef fjárfestingin reyndist að lokum arðbær.

Nánar er fjallað um fjárfestingar Ryan Reynolds í blaðinu Eftir vinnu, sem kom út í gær. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.