Fyrirséð er að ríkissjóður verður áfram rekinn með halla næstu ár á sama tíma og erfið tímabil, með tilheyrandi kostnaði, virðast algengari. Ýmsar hagræðingaraðgerðir hafa litið dagsins ljós en nauðsynlegt er að ganga lengra að mati Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra. Hún segir oft auðveldara að bæta ofan á grunninn frekar en að brjóta hann upp.

„Það felur í sér erfiðari ákvarðanir, breytingarstjórnun sem hefur áhrif á verkefni fólks og störf fólks. Óbreytt staða er oft einhvern veginn auðveldari pólitískt og það er ekki sérstaklega kallað eftir því af nægilega mörgum að draga úr eða halda aftur af ríkisútgjöldum. En ég segi fyrir mitt leyti, það er almenn kurteisi að fara vel með annarra manna fé.“

© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Ein þeirra hagræðingaraðgerða sem tilkynnt var um fyrr á árinu var sameining ríkisstofnana. Ýmis áform hafa komið fram á síðustu árum en fæst þeirra virðast hafa gengið eftir.

„Auðvitað er þetta mjög vandmeðfarið, en samfélag sem telur 400.000 manns þarf ekki yfir 160 ríkisstofnanir með tilheyrandi yfirbyggingu og of margar með færri en 50 starfsmenn. Það þarf að undirbyggja ákvarðanir, fá fólk með sér og allt það, en það er ótrúleg tilhneiging líka að nánast sama hvað er lagt til, þá eru alltaf einstaklingar og hópar sem eru ósáttir, sumir út frá einhverjum pólitískum skoðunum, aðrir út frá hagsmunum eða breytingum á sinni stöðu, eitthvað sem verður óþægilegra eða erfiðara og svo framvegis,“ segir Þórdís Kolbrún og bætir við að mögulega sé þörf á ákveðinni viðhorfsbreytingu og skýrari sýn á það hver raunveruleg verkefni ríkisins eru.

Prinsippið að þjónustan sé veitt

Mikilvægt er að gera greinarmun á verkefnum hins opinbera að mati Þórdísar en við blasi líffræðileg þróun sem muni kalla á nýja nálgun, ný verkefni og meiri þjónustuþörf. Velferðarmálin séu þar engin undantekning, þó þau geti verið vandmeðfarin. Í því samhengi þurfi meðal annars að hleypa fleirum að til að veita þá þjónustu.

„Prinsippið þar er að þjónustan sé veitt og það skipti ekki máli að þú eigir mikla fjármuni eða litla hvort þú fáir þá þjónustu. Það á ekki að vera eitthvað kredduatriði að það sé ríkið sem sinnir þjónustunni heldur er það ábyrgð ríkisins að þjónustan sé veitt. Óháð efnahag.“

„Ríkið á fyrst og fremst að sinna grunnþjónustu samfélagsins, kjarnanum. Og sinna henni almennilega. Öðru eigum við að leyfa öðrum að finna út úr og sinna.“

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.