Þýska flugfélagið Lufthansa og stéttarfélag flugmanna félagsins hafa náð samkomulagi í kjaradeilu. Þar af leiðandi hefur verið fallið frá verkfalli flugmannanna, sem átti að hefjast í dag. Reuters greinir frá.
Flugmenn Lufthansa lögðu niður störf í síðustu viku vegna kjaradeilunnar og varð það til þess að flugfélagið þurfti að aflýsa hundruð fluga. Stéttarfélag flugmannanna hefur enn sem komið er ekki gefið út hvaða kjarabætur nýi samningurinn felur í sér en segir þær nógu góðar til að falla frá fyrirhuguðu verkfalli. Í yfirlýsingum lýstu bæði stéttarfélagið og stjórnendur Lufthansa yfir ánægju með að samningar væru í höfn.
Flugmenn farþegaflugvéla Lufthansa áttu að leggja niður störf í dag og á morgun, meðan flugmenn fraktflugvéla áttu að fara í verkfall frá deginum í dag til föstudags. Er um að ræða ríflega 5 þúsund flugmenn.